Fara í efni

Nærumst eins og gæludýr og ungabörn

Nærumst eins og gæludýr og ungabörn

Það kemur mér stöðugt á óvart í næringarráðgjöf hvað við getum verið hugsunarlaus í því með við setjum ofan í okkur. Alltof mikið af óhollustu fer ofan í okkur án þess að við hugsum nægilega mikið um afleiðingar þess á heilsu okkar og líðan.

Þetta hugsunarleysi í matarvali á ekki við þegar við nærum ungabörnin eða gæludýrin okkar.
Hér eru tvö dæmi sem fá ykkur kæru lesendur vonandi til þess að fara að nærast vel á ÖLLUM aldri.

NÆRING BARNA OG UNGBARNA
Fyrstu mánuði ævi okkar nærast flest ungabörn á brjóstamjólk og svo upp úr 6 mánaða aldri fara ungabörn að fá meira og meira af fastri fæðu.
Við 3-4 ára aldur fá mjög mörg börn smá gosdrykk og nammi og þegar barnið er orðið 7 ára er þessi skammtur orðinn helmingi stærri.
Svo byrjar partýið hjá þessum unga einstaklingi um 10 ára aldur og þá er hjá flestum engar takmarkanir í mataræðinu og hann/hún er farin að matast eins og fullorðin eða full„þroska“ einstaklingar. En í þessu „matar“úrvali fullorðinna einstaklinga fer alltaf mikið af mat sem telst ekki sem góð næring fyrir manneskjur, hvort sem þær eru fullvaxta eður ei.

Setjum upp dæmi:
Ef einhver af ykkur lesendum mínum mundi sjá til mín gefa 3 mánaða gamalli dóttur minni Coca Cola á pela þá tilkynnið þið mig vonandi sem fyrst til Barnaverndar. En af hverju gerið þið það ekki þegar dóttir mín er 4 ára og fær 500 ml af Coca Cola heila helgi hjá mér eða 1 L yfir helgi þegar dóttirin er 7 ára?!
Hvar er svo Mannverndin sem getur tekið á móti tilkynningum þegar maður sér fullorðnar og full „þroska“ manneskjur úða í sig óhollustu s.s. gosdrykkjum, orkudrykkjum, skyndibita, sætindum, snakki og öðrum gervimatvörum.

NÆRING GÆLUDÝRANNA OKKAR
Við erum sem betur fer flest mjög passasöm upp á næringu gæludýranna okkar og margt sem við fáum okkur sem við mundum aldrei gefa gæludýrunum okkar. Þó erum við manneskjan „homo sapiens“ eða hinn viti borni maður ein æðsta „dýrategundin“ en þó sú tegund á Jörðinni sem neytir hvað verstar næringar.

Setum upp annað dæmi með gæludýrin okkar:
Buffý pug tíkin mín er nýlátin, 12 ára gömul. Hún var á rándýru sérfóðri síðustu æviár sín vegna gigtar. Ef ég hefði einn daginn ekki tímt að kaupa þetta dýra fóður og gefið henni frekar Cocoa Puffs sem hún elskaði og úðaði í sig. Með þessu gaf ég henni líka Coca Cola í vatnsdallinn því henni þótti það svo gott og drakk það af áfergju.
Eftir mánuð á Cocoa Puffs og Coca Cola þá hefði Buffý ekki farið upp úr bælinu að morgni og ég hefði farið með hana á Dýraspítalann í Garðabæ. Dýralæknirinn þar spyr mig um fæðuvenjur hennar og hver gæti verið orsök slappleika og veikinda Buffýjar? Ég tjái dýralækninum að ég hefði ekki tímt að kaupa þetta rándýra fóður sem þau voru að selja og hefði bara gefið henni Cocoa Puffs og líka Coca Cola í stað vatns. Dýralæknirinn hefði tjáð mér að að það þyrfti að taka Buffý af lífi því lifrin og brisið störfuðu mjög illa og hún ætlaði einnig að tilkynna mig til Dýraverndarsamtaka Íslands!

Þessi tvær dæmisögur af því hvað við nærum ungabörnin okkar og gæludýr vel, er hugsuð sem vakning til ykkar kæru lesendur að fara að næra ykkur sjálf jafnvel og þið nærið ósjálfbjarga ungabörn og gæludýr. Ég er þó ekki að segja ykkur að fara bara að drekka brjóstamjólk eða borða hundamat en að þið setjið a.m.k. 80% af náttúrulegri og nærandi fæðu ofan í ykkur. Hin 20% er matur af síðri gæðum stöku sinnum s.s. skyndibiti, sætindi, gosdrykkir, áfengi, bakarísmatur, kex, kökur og unnar kjötvörur.

Þó við eldumst erum við gerð úr sömu efnum og yngri útgáfan af okkur. Á öllum aldri eigum við því skilið næringarríka fæðu.

Berið ábyrgð á eigin heilsu eins og þið berið ábyrgð á heilsu ungabarna og gæludýra.

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Geir Gunnar Markússon er ritstjóri heimasíðu NLFÍ. Hann er með BS próf í matvælafræði og MS próf í næringarfræði.
Geir er Kópavogsbúi, giftur, á 3 dætur og einn hund. Hans áhugamál snúa að heilsu, næringu, hreyfingu og tónlist.
Geir berst gegn alls kyns öfgum og hindurvísindum í næringar- og heilsufræðum.