Fara í efni

Seldu sjálfa(n) þig ...

... auðvitað ekki í orðsins fyllstu merkingu heldur styrkleika þína, þeir eru þín besta söluvara!
Maria Björk Óskarsdóttir : eigandi NÝTTU KRAFTINN
Maria Björk Óskarsdóttir : eigandi NÝTTU KRAFTINN

... auðvitað ekki í orðsins fyllstu merkingu heldur styrkleika þína, þeir eru þín besta söluvara!

Margir hrökkva í kút, fara undan í flæmingi eða í algjöra flækju þegar á þetta reynir til dæmis í atvinnuleit og þeim aðstæðum þar sem fólk þarf að koma sjálfu sér á framfæri. Oftar en ekki heyrir maður  „ég get ekki selt mig en mér finnst ekkert mál að segja hvað aðrir eru frábærir og klárir. Ég get vaðið eld og brennistein til að hrósa og mæla með þeim sem ég trúi á en mér finnst bara svo erfitt að gera það sama fyrir mig.“ Hljómar kunnuglega? Flestum finnst nefnilega almennt frekar óþægilegt að tala um eigin styrkleika, hræddir um að það virki sem sjálfshól, hroki eða grobb.

Hvað er þá til ráða, hvernig á maður að „selja“ sjálfan sig? Grunnurinn liggur fyrst og fremst í sjálfskoðun og sjálfsþekkingu sem og að átta sig á því við hvaða aðstæður maður nýtur sín best. Það er afar gagnlegt að kanna í hvaða ljósi aðrir sjá mann því það bæði styrkir mann í því sem maður oftast veit innst inni en getur líka komið manni skemmtilega á óvart. Eftir því sem maður lærir betur að byggja upp, þekkja og þjálfa styrkleika sína, hækkar sífellt meira í sjálfstraustspottinum. Með auknu sjálfstrausti eykst svo frumkvæði, kjarkur og kraftur og það verður ekkert mál að segja öruggum rómi við mann og annan: „Hér er ég og fyrir þetta stend ég!“

Í Nýttu kraftinn vitum við sem er að fólk er ráðið út á styrkleika sína, það eru þeir sem þykja gull á vinnumarkaði  en ekki veikleikarnir. Auðvitað hafa allir einhverja veikleika enda enginn fullkominn. Veikleikana ber að þekkja og í mörgum tilvikum vinna með eða virkja. Því miður festast hins vegar alltof margir í þeim pytti að velta sér mest upp úr veikleikum sem skipta kannski ekki svo miklu máli og reyna að stoppa í götin fremur en að einbeita sér að styrkleikunum og því sem maður gerir best og þykir jafnvel skemmtilegast.  Það er árangursríkara að fyrir fólk að þekkja hæfni sína og færni, vita hvað það raunverulega vill og hvað það hefur að bjóða á vinnumarkaði því hver og einn er „söluvaran“ og þarf að standa með sjálfum sér í að koma henni sem best á framfæri.  

Það má  vinna með sjálfskoðun og styrkleika á ýmsa vegu og nýtum við meðal annars markvissar spurningar og fjölda verkefna sem hjálpa fólki að kafa inn á við til að leita réttu svaranna. Finna má fjölmörg ólík verkefni í bókinni okkar sem reynst hafa þátttakendum á Nýttu kraftinn námskeiðunum vel. Oft er líka gott að rifja upp sögur af því sem vel hefur tekist til í leik og starfi hvort sem er nýlega eða í fortíðinni. Velta fyrir sér framgangi mismunandi verkefna sem maður hefur tekið þátt í, skoða á gagnrýninn hátt hlutverk manns og upplifun í þeim verkefnum  og hvort eitthvað sem maður tók sér fyrir hendur varð til þess að leysa málin.

Þú getur hæglega verið pússlið sem vantar!

Það er nauðsynlegt að átta sig á því og muna að styrkleikar geta verið veikleikar í einu samhengi og öfugt. Sem dæmi þá getur fljótfær einstaklingur fullur af eldmóði og áræðni verið drifkrafturinn sem þarf til að koma verkefnum áfram þó fljótfærnin geti komið honum í koll og verið óásættanleg í öðrum aðstæðum. Fyrirtæki sem eru að ráða til sín fólk eða endurskipuleggja innviðina leitar  eftir einstaklingum með einhverja ákveðna eiginleika sem fyrirtækið hefur metið fyrirfram að það þurfi á að halda þá stundina til að allt virki sem best. Það er vandasamt ábyrgðarverkefni að ráða starfsfólk sem að auki er kostnaðarsamt ferli. Fyrir fyrirtækið verður ráðningaferlið því eins og leitin að rétta pússlinu sem vantar í pússluspilið til að myndin verði heilsteypt. Við vitum aldrei nákvæmlega hvaða styrkleiki, hæfni eða persónueinkenni verður úrslitaatkvæðið í hverju vali, pússlið þarf bara að passa sem allra allra best í reitinn.

Vilji maður koma sjálfum sér og eigin styrkleikum á framfæri fumlaust og fullur sjálfstrausts skiptir öllu máli að vanda til verka við sjálfskoðunina, gefa sér tíma til að kafa djúpt inn á við og gleyma ekki að rökstudd dæmi eru gulls ígildi.  Umfram allt þarf að forðast þessar óræðnu, klisjukenndu lýsingar sem svo margir freistast til að nota en segja ekkert meira um þig eða manninn við hliðina á þér sem lýsir sér með sömu léttvægu, almennu orðunum. Framsetning á eigin styrkleikum hvort sem er á prenti eða í orði þarf umfram allt að vera einlæg og heiðarleg því allt sem ekki er innstæða fyrir kemur upp á yfirborðið fyrr en varir og þá ber ímynd manns fljótt skaða.

Haltu höfðinu hátt og vertu óhrædd(ur) við að selja þína helstu styrkleika því sannaðu til það er eftirspurn eftir þeim þarna úti. Kannski þarftu að máta styrkleika þína og hugmyndir við nokkur mismunandi pússluspil áður en þú finnur reitinn sem þú smellpassar í.

Þar til þá NÝTTU KRAFTINN því hann býr innra með þér :)

Höf: María Björk Óskarsdóttir, viðskiptafræðingur og ráðgjafi.


Hugmyndir, ráð og hvatning fyrir atvinnuleitendur og alla þá sem leita sér að nýjum tækifærum.

www.nyttukraftinn.is