Fara í efni

Bergþór Pálsson óperusöngvari svarar nokkrum léttum spurningum

Við þekkjum öll hann Bergþór Pálsson. Hann er magnaður óperusöngvari ásamt svo miklu meira. Að mínu mati þá er allt sem hann tekur sér fyrir hendur óaðfinnanlegt.
Bergþór Pálsson
Bergþór Pálsson

Við þekkjum öll hann Bergþór Pálsson. Hann er magnaður óperusöngvari ásamt því að vera svo miklu meira. Að mínu mati þá er allt sem hann tekur sér fyrir hendur óaðfinnanlegt.

Hvernig byrjar þú hefðbundinn dag og hvað er í morgunmat ?

Oft fæ ég mér loftbað við svaladyrnar og hreyfi alla liði líkamans til að hjálpa vökvunum í kroppnum að fara af stað og stunda hreinsistarf. Á eftir fylgir safi úr hálfri sítrónu í einu glasi af volgu vatni, stundum grænn hristingur.

Um nokkra hríð hef ég verið að reyna að þjálfa sambýlismann minn í að skilja ávallt eftir grænan hristing fyrir mig áður en hann fer í vinnuna, svo að ég geti fengið mér hann hugsunalaust þegar ég vakna. Tamningin hefur ekki borið fullkominn árangur, svo að stundum gríp ég heimatilbúið múslí sem hann býr til og er alltaf til, með möndlumjólk, en í múslíinu er m.a. alls kyns krydd og jurtir úr íslenskri náttúru.

Best væri auðvitað að fara alla morgna út í hressilegan göngutúr. Við félagarnir tókum okkur reyndar til og bárum út blöð um tíma til að komast ekki hjá því að fara út, en síðan við hættum því er ég frekar latur við drífa mig út í hvaða veður sem er. Úpps, ég má ekki tala mig niður, svo að bráðum fer ég alla morgna, já já!

Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Hvítlaukur, engifer og sítrónur. Ég vildi helst alltaf eiga líka rauðrófusafa, en tími því ekki alltaf.

Nefndu mér þrjá hluti sem þú gætir ekki verið án?

Hlutir eru mér ótrúlega lítils virði, en 1500 watta blandaratryllitækið er undravert og áður en það kom til var til dæmis erfitt að gera eigið hnetusmjör og möndlumjólk. Sítrónupressan er eiginlega ómissandi líka. Svo býst ég við að ég fengi ekki mikið að gera, ef ég hefði ekki þessi fjarskiptatæki, tölvu og síma. Þau halda manni að vísu í gíslingu alla daga, en vissulega eru þau dásamleg, ef maður notar þau rétt.

Hvað er það allra skemmtilegasta sem þú gerir?

Að undirbúa og halda matarboð. Og svindla pínulítið á hollustunni í leiðinni, það er svo afskaplega hentug afsökun.

Borðarðu nammi?

Ég get fullyrt að ég kaupi mjög sjaldan sælgæti handa sjálfum mér (og ef ég stelst til þess, segi ég ekki frá því), en ef það er til gott súkkulaði í kotinu, að ég tali ekki um kókosbollur, þá er ég í stökustu vandræðum með að vera einhver heilagur hófsemisengill. Ég játa.

Hversu oft í viku æfir þú og hvernig æfingar ertu að gera?

Hjóla á hverjum degi eða geng. 

Finnst þér íslendingar almennt duglegir að hreyfa sig?

Nei, við notum einkabílinn of mikið, fólk fer meira að segja í líkamsrækt á bíl, sem er eiginlega absúrd.

Myndir þú fara á milli staða í Reykjavík á hjóli ?

Já, takk, ég seldi bílinn í sumar og því fylgir gríðarleg frelsistilfinning (og allir vasar eru alltaf fullir af peningum)! Ég verð mjög illkvittinn í framan þegar ég hjóla framhjá líkamsræktarstöð, þar sem ég sé fólk hjóla inni í svitalykt, meðan ég nýt þess að anda að mér fersku lofti og kemst um leið úr sporunum. Svona er ég ótrúlega fullkominn, -stundum - (og smá belgingur í mér líka!).

Kaffi eða te?

Kaffi, en þótt það hafi hressandi áhrif í augnablik, hefur það eitrandi áhrif á mig, ég verð mjög slappur hálftíma síðar og þarf meira. Fyrir utan að ég hef mælt hvernig það hækkar blóðþrýsting um svona 10 mmHg. Ég er bara svo mikill fíkill að ég á bágt með að neita mér um það.

Ef þú værir beðinn um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það? 

Að setja vatn í flösku eða tvær flöskur til að fylgjast með því að nóg vatn sé drukkið yfir daginn. Einnig að anda meðvitað nokkrum sinnum á dag í nokkrar mínútur, hugsa sem sagt ekki um neitt annað en að anda hægt og sem lengst niður í kviðinn. Þetta er hvorki meira né minna en lífselexír!