Fara í efni

Viðtalið – Hallgrímur Kristinsson fjallaskíðagarpur í skemmtlegu viðtali

Það eru ekki allir sem geta skíðað upp fjöll en hann Halli getur það, kíktu á flott og fróðlegt viðtal við fjallagarpinn sem reyndi við Muztagh Ata í Kína í sumar.
Viðtalið – Hallgrímur Kristinsson fjallaskíðagarpur í skemmtlegu viðtali

Það eru ekki allir sem geta skíðað upp fjöll en hann Halli getur það, kíktu á flott og fróðlegt viðtal við fjallagarpinn sem reyndi við Muztagh Ata í Kína í sumar.

 

 

 

Fullt nafn: 

Hallgrímur Kristinsson en gjarnan kallaður Halli.

 

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan kemur áhugamál þitt, fjallamennska ?

Ég er 43 ára gamall og ólst upp í Seljahverfi í Breiðholti og hef í raun alltaf búið þar eða í Grafarvoginum.  Þannig að ég er algjört malbiksbarn… Hef þó búið í 10 ár erlendis, bæði í Bandaríkjunum og Belgíu.  

Ég byrjaði ungur í skátunum (sem byrjaði á því að ég elti sætar stelpur á skátafund). Þar fór áhugi minn á fjalla- og ferðamennsku að verða til og 12 ára gamall var ég byrjaður að fara sjálfur á fjöll.  Fermingar óskalistinn minn innihélt, svefnpoka, bakpoka og áttavita svo eitthvað sé nefnt, svo áhuginn kviknaði snemma. Ég er ekki frá því að maður hafi verið álitinn pínu skrýtinn á þessum tíma að skunda upp á fjöll, enda hafði útivist á þeim tíma ekki heltekið þjóðina eins og verið hefur undanfarin ár. Ég hef í raun verið á fjöllum allan tíma síðan. 

Ég gekk í Íslenska Alpaklúbbinn 16 ára gamall og var þar starfandi í smá tíma. Þegar ég kom svo úr námi í Bandaríkjunum 24 ára gamall komst ég að því að allir ferðafélagarnir mínir voru orðnir ráðsettir og höfðu lítinn tíma til að ferðast. Þá skellti ég mér í Flugbjörgunarsveitina í Reykjavík til þess að finna nýja ferðafélaga og þar hef ég starfað, þó með hléum, alla tíð síðan.

Ég á þrjá stráka með fyrrverandi konunni minni og eru þeir 12, 17 og 25 ára gamlir. Sá elsti og sá yngsti hafa báðir verið mikið í klifri og sá yngsti æfir klifur í Klifurhúsinu og sá eldri er þar æði oft enda hefur hann verið að klifra í meira en 10 ár. Þá er gaman að segja frá því að sá elsti elti mig í útivistina og gekk inn í Flugbjörgunarsveitina fyrir nokkrum árum þar sem við erum báðir nokkuð virkir.

 

Menntun og við hvað starfar þú í dag ?

Ég er með B.A gráðu í Communications frá Bandaríkjunum, nánar tiltekið frá George Mason University sem er skammt fyrir utan Washington DC. Þá bætti ég við mig MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík fyrir rúmum áratug síðan (úff, er orðið svo langt síðan?).  Ég hef starfað við kvikmynda og afþreyingariðnaðinn í hartnær 18 ár hér heima og erlendis og starfa í dag í hagsmunarmálum fyrir hönd sjónvarps- og kvikmyndahúsaiðnaðarins.

Hefur þú einhvern bakgrunn í íþróttum og heilsurækt ?

Eins og svo margir, stundaði ég íþróttir sem smástrákur. Þetta hófst í fótboltanum en síðan færði ég mig yfir í handboltann sem ég æfði í 11 ár hjá ÍR í Breiðholtinu. Eftir að því lauk hef ég, eins og svo margir, stundað líkamsrækt og skokk. Hef prófað Bootcamp og Crossfit líka, en það er meira í törnum og oft sem liður í undirbúningi fyrir stórar fjallaferðir.

 

Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan fjallamennskuna ?

Fyrir utan fjölskylduna er það almennt heilsurækt. Ég æfi líkamsrækt 3 – 5 sinnum í viku og er duglegur að blanda saman æfingum. Þannig reyni ég að fara út að hlaupa í bland við það að mæta í ræktina.  Þá hef ég ferðast mjög mikið um ævina.  Það hefur mest verið vegna vinnu en ég hef þó náð að skjótast í skemmtilegar ævintýraferðir inn á milli líka. Ég hef komið til 50 landa og hef m.a. klifið fjöll í Ölpunum, austur Evrópu, Afríku og Asíu.

Þurfa þeir sem eru í björgunarsveitum ekki að vera í mjög góðu líkamlegu og andlegu formi ?

Það er auðvitað æskilegt að fólk sé í góðu líkamlegu formi en kannski ekki alltaf nauðsynlegt. Það eru margvísleg störf sem þarf að inna af hendi og ekki eru þau öll að ganga upp á fjöll eða að fara í leitir. Það þarf að halda við tækjum og tólum, keyra bíla, sinna stjórn sveitarinnar og stýra útköllum úr húsi svo dæmi séu tekin. Þetta er því mjög fjölbreytt og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, óháð líkamlegu formi. Hjá sveitum hér á höfuðborgarsvæðinu er þetta byggt upp á tveggja ára „þjálfun“ sem aðilar þurfa að ganga í gegnum. Þjálfunin er blanda af ferðum, æfingum og ýmsum námskeiðum sem viðkoma fjalla- og björgunarstörfum. Það er því eiginlega óhjákvæmilegt að þegar einstaklingur hefur farið í gegnum tveggja ára nýliða prógram að þá sé viðkomandi yfirleitt kominn í góða líkamlega (og andlega) þjálfun – þó svo að viðkomandi hafi kannski ekki verið þar í upphafi.  Auðvitað er mikið lagt upp úr andlega hlutanum líka – enda oft unnið í erfiðum aðstæðum við erfið viðfangsefni. Undanfarin ár hefur því orðið mikil, jákvæð breyting í að huga að andlega hlutanum. Áfallahjálp er t.d. orðin stöðluð eftir erfið útköll.

 

Hvert er aldurstakmark til að ganga í björgunarsveit ?

Það er 18 ára en það er ekki síður fólk sem eldra er sem leitar í björgunarsveitir og nýliðar hjá okkur í dag eru á aldrinum 18 ára til yfir fimmtugt. Enda ertu aldrei of gamall til að taka þátt í þessu skemmtilega og gefandi starfi.

Getur þú útskýrt hvað Fjallaskíði eru?

Fjallaskíði eru í raun ekki frábrugðin venjulegum skíðum að sjá, en eru þess eðlis að hægt er að losa bindingarnar í hælinn og með því að setja sérstök skinn undir skíðin er hægt að ganga upp í móti á skíðunum. Skórnir hafa líka ákveðinn liðleika í hælnum sem venjulegir skíðaskór hafa ekki. Þegar upp er komið, eru liðamót skíðaskónna „fest“, skinnin tekin af og bindingarnar settar í „skíðamót“ (hællinn festur niður) sem gerir það að verkum að þú ert í raun að skíða niður eins og á venjulegum svigskíðum.  Þó eru fjallaskíði almennt breiðari en venjuleg skíði þar sem þú ert mikið utan brauta.

Hver var kveikjan að „skíðað í skýjunum“ ?

Á nokkurra ára fresti hef ég valið að fara í ævintýraferð á fjarlæga staði úti í heimi og klifið fjöll.  Ég hef stundað fjallaskíði [HK1] [FRT2] í tæp 25 ár og mig hefur lengi langað að sameina skíðin og fjallamennskuna í góðri ævintýraferð. Það eru um 12 ár síðan ég heyrði fyrst af fjallinu Muztagh Ata í Kína, sem er gífurlega hátt fjall en samt  þess eðlis að ein hlið þess er tiltölulega aflíðandi sem gerir það að verkum að hægt er að skíða það upp og niður. Fjallið er tæplega 7.600 metra hátt (1.200 metrum lægra en Everest) og er í raun talið hæsta fjall í heiminum sem hægt er að skíða (þó einhverjir ævintýramenn / brjálæðingar hafi vissulega skíðað Everest). Því hefur það lengi staðið til að reyna við fjallið og ég lét loksins verða af því í sumar.   

 

Hvernig var tilfinningin að leggja í þetta ferðlag og hvernig gekk það ?

Þegar þú ætlar að reyna við svo háan tind, þá getur þú ekki lengur talað um fjallaferð heldur er þetta orðið leiðangur því ekki er hægt að gera ráð fyrir að komast á tindinn nema að vera nokkrar vikur á fjallinu í hæðaaðlögun. Svo tekur það töluverðan tíma að komast að fjallinu enda fjallið á mjög afskekktum stað vestast í Kína og þurftum við að fara í gegnum Kyrgyzstan til að komast að því.  Þetta var því allt í allt rúmur mánuður sem fór í þetta ævintýri. 

Að hanga nokkrar vikur í tjaldi í stundum erfiðum aðstæðum tekur gífurlega mikið á líkamlega en ekki síður andlega. Þetta er ekki eitthvað sem þú getur undirbúið nema með reynslu og þó svo ég taldi mig hafa töluverða reynslu í fjallamennsku – þá kom það mér aðeins á óvart hversu erfitt þetta reyndist andlega. Hluti af ástæðunni er sú að líkaminn er ekki gerður fyrir hæð og því fylgir mikil vanlíðan (slappleiki, höfuðverkur ofl) á meðan aðlögun stendur yfir og þú hefur ekki mikla matarlyst (þrátt fyrir að líkaminn þurfi mikla orku í hæð).  Ég var vissulega búinn að æfa mig vel líkamlega, og þá ekki bara að fara í ræktina og hlaupa, heldur líka að ganga á fjöll fyrir ferðina, enda er besta æfingin fyrir fjallgöngu, fjallganga! Andlega var ég líka vel gíraður fyrir ferðina með alla mína fjallareynslu en það var þó ekki að hjálpa að það hafði verið mikið rót í mínum persónulegum málum mánuðina fyrir ferðina. Ég var nýskilinn þegar ég lagði í ferðina og þó svo að ég og mín fyrrverandi höfum skilið í miklu bróðerni og vináttu – þá hefur það engu að síður í för með sér mikið rót þegar þú þarft að breyta umgengni þinni við börnin, finna nýjan stað að búa á og svo framvegis. Eftir á að hyggja tel ég að það hafi í raun haft meiri áhrif á mig á fjallinu en ég gerði mér fyrirfram grein fyrir.

Við vorum átta manna hópur sem innihélt (auk mín) öfluga fjallamenn frá Sviss, Austurríki og Þýskalandi. Ferðin gekk ágætlega en þó vorum við óheppin að því leiti að það snjóaði gífurlega mikið meðan við vorum þar. Við vorum fyrsti hópurinn á fjallið þetta árið og „grunnbúðarstjórinn“ okkar sem er kínverskur, sagði að ekki hefði snjóað eins mikið á fjallinu í júní mánuði í 20 ár. Það kyngdi niður snjó á næturnar sem gerir gönguna upp mun erfiðari, - þó svo að þú sért á skíðum. Að lokum fór það þannig að engum okkar tókst að komast upp á tindinn og aðeins tveir í hópnum komust hærra en ég á fjallinu. Þeir komust í 7.000 metra hæð en sjálfur þurfti ég að snúa við í 6.500 metrum. Það er þó þokkalegur árangur enda hefur enginn Íslendingur skíðað svo hátt og í raun var toppurinn alltaf bónus – því ferðalagið og ævintýrið er auðvitað það sem maður sækist mest í. Ég var reyndar einstaklega óheppinn því mér tókst að brjóta annað skíðið á leið niður í eitt skiptið og gat því ekki tekið þátt í loka tilrauninni að komast á fjallið. Það kom þó ekki að sök þar sem þeir sem þá reyndu komust lítið áleiðis enda púðrið orðið meira en 60 cm og þeir snéru við.

Þegar þú ferð á fjöll að skíða hvernig nesti tekur þú með þér og hvernig undirbjóstu þig fyrir ferðalagið „skíðað í skýjunum“ varðandi næringu ?

Öfugt við mörg önnur ævintýri sem reyna á þrek og þol, þá er nú mælt með því fyrir leiðangurs ferðir að mæta með smá auka kíló með sér því það er fljótt að skafa af manni þegar upp í fjallið er komið. Auðvitað tók ég því mjög alvarlega [segir Halli og hlær] og var óhræddur við steikurnar og nokkra hamborgara fyrir ferðina. En almennt í útivist og fjallamennsku skiptir næring gífurlega miklu máli og ég tek því mjög alvarlega.  Við erum m.a. með sér námskeið í mataræði á fjöllum fyrir nýliða í björgunarsveitunum því í góðri fjallaferð brennir fólk helmingi fleiri kaloríum heldur en á hefðbundnum degi og enn meira í kulda. Það að kunna að nesta sig upp skiptir því miklu máli og það skiptir t.d. máli hvaða matur er borðaður að morgni og hvað að kveldi. Það er of langt að fara í næringarfræðina hér en þó má geta þess að í fjallinu í Kína nærist maður aðallega á svokölluðum þurrmat í hærri búðum í fjallinu, sem er mjög næringarríkur og orkumikill (og síðast en ekki síst, léttur) matur sem eingöngu þarf að blanda heitu vatni í. Þá vorum við með instant pasta og súpur með okkur líka. Að drekka vatn/vökva er samt það þýðingarmesta sem þú gerir á fjöllum, hvort sem er í göngutúr í Þórsmörk eða að klífa fjöll í Kína. Sérstaklega þarf að gæta þess að vökva sig vel þegar þú ert komin(n) í mikla hæð þar sem álagið á líkamann er mikið. Ég gerði nánast ekkert annað í tjaldbúðum upp í fjallinu nema að bræða vatn til næringar. Þó er það þó þannig að í hæð missir fólk mikla matarlyst og eftir tæpar þrjár vikur á fjallinu gat ég nánast engu komið niður í efri búðum nema súpu og vatni. Öllu öðru skilaði maður upp aftur og þannig var því líka farið með ferðafélaga mína.

Ertu mikið að skíða uppá fjöllum og á óhefðbundnum stöðum þar sem ekki eru skíðalyftur ?

Fjallaskíðamennskan gerir fólki kleyft að ferðast á skíðum utan brauta og veitir því mikið frelsi til skíða iðkunnar. Ég eignaðist mín fyrstu fjallaskíði fyrir tæpum 25 árum síðan og þá var nánast enginn sem var að nýta þessa tækni og skíða brekkur utan alfaraleiða en það hefur mikið breyst á síðustu árum. Fjallaskíðamennskan er ein af þessum „dellum“ sem Íslendingar hafa gripið alla leið undanfarið sbr. hlaup og hjólreiðar og nú allra síðustu ár er aragrúi fólks farið að skíða hóla og hæðir allt í kringum Reykjavík og víðar á veturna. Auðvitað er margt sem þarf að passa vel þegar skíðað er utan brauta og reynsla og kunnátta í tengslum við snjóflóð og snjóflóðavarnir eru nauðsynlegar því þetta er ekki hættulaust sport.

Hverjir eru drauma fjallstindarnir þínir ?

Muztagh Ata sem ég reyndi við í sumar var líklega sá tindur sem ég hef mest horft til síðustu ár en auðvitað eru aðrir tindar út í heimi sem ég hef verið að velta fyrir mér en kannski ótímabært að segja frá því hvað verður næst á dagskránni. Ég hef gengið upp á ansi marga tinda hér á landi líka en það var einungis á síðasta ári sem ég fór í fyrsta sinn upp á Snæfell, en það er fjall sem mig hefur lengi langað að skíða. Um mánaðamótin júlí og ágúst á síðasta ári skíðaði ég niður norðurhlíð Snæfells með tveimur vinkonum mínum og það er ein skemmtilegasta skíðabrekka sem ég hef skíðað hér á landi.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?

Ég er mjög hrifinn af mexíkóskum mat og safaríkum burritos.  Ég mundi segja að Culiacan á Suðurlandsbraut sé í miklu uppáhaldi og þar fæ ég mér oft eitthvað gott að borða eftir ræktina í hádeginu.  Þá finnst mér „smoothie“ drykkir frábærir og góðir að grípa í á milli mála. Ég hef líka alltaf verið hrifinn af góðri nautasteik og ekki er verra að hafa béarnaise með og franskar. Slíkt má leyfa sér endrum og eins, en skreyttir fusion diskar með froðu er eitthvað sem ég forðast.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?

Ég er að lesa einhvern almennan krimma sem ég man ekki einu sinni hvað heitir, svo varla skilur hún of mikið eftir sig. En þannig bækur finnst mér oft gott að lesa, góða spennu sem tekur sig ekki of alvarlega en fær mann til að gleyma sér. Ég hef lesið mikið af bókum um fjallamennsku og reynslu annarra af svaðilförum um heim allan. Ein besta bók sem ég hef lesið heitir „Mountain men“ sem fjallar um ótrúlega fífldirfsku manna í kringum aldarmótin 1900 þegar að menn reyndu að setja ýmiss konar mis gáfuleg met í ferða og ævintýramennsku m.a. með því að sigla norð-vestur leiðina svokölluðu eða að vera fyrstir á norðurpólinn í loftbelg!

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?

Mér finnst mjög gaman að fara í kvikmyndahús og geri það mjög reglulega enda er ég algjör „sucker“ fyrir góðu sjónvarpsefni og bíómyndum. Ef ég held mig heima, þá er það oftast góð mynd í sjónvarpinu með þeim sem standa mér næst og ekki er verra að opna eina góða alvöru Rioja rauðvín þegar gera á sérstaklega vel við sig.

 

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?

Það er kannski ekki svo mikið hvað ég segi, heldur hvað ég geri. Ég hef lært það að ólíklegustu hlutir gerast ef maður byrjar að plana þá. Erfiðustu verkefni eiga það til að leysast að sjálfu sér þegar farið er að vinna í þeim. Þannig að í stað þess að velta því of mikið fyrir mér hversu erfitt eitthvað verkefni er, þá legg ég bara af stað í skipulagningu á því og þá eiga hlutirnir það til að reddast. Sem dæmi, þá getur maður setið heima og sagt að maður hafi aldrei tíma eða fjármagn til að heimsækja Himalaya fjöllin (eitthvað sem ég á eftir að gera) nema ég byrji að plana það og setja niður dagsetningar, þá mun það líklega aldrei gerast. Þetta kann að hljóma sem sjálfsagður hluti að byrja að plana verkefni, en allt of oft hef ég séð fólk mikla verkefni fyrir sér sem aldrei verða úr, því það byrjaði ekki að vinna í skipulagningunni.

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár ?

Einfalt… á fjöllum. Sem betur fer valdi ég mér áhugamál sem ég get stundað ævilangt þótt fjöllin fari kannski lækkandi með aldrinum.

 

Hér getur þú séð Facebook síðu Halla "skíðað í skýjunum".