Fara í efni

Alþjóðleg vika tileinkuð bólusetningum

Undanfarin ár hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) tileinkað bólusetningum eina viku á ári.
Alþjóðleg vika tileinkuð bólusetningum
Undanfarin ár hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) tileinkað bólusetningum eina viku á ári.
Í ár eru það dagarnir 24.–30. apríl.
Með þessu framtaki vill WHO leggja áherslu á að lönd, svæði og þjóðir um allan heim leggi aukinn kraft í bólusetningar og að dreifing bóluefna verði réttlátari.

Markmiðið er að loka þeirri gjá sem er á milli landa hvað aðgengi að bóluefnum og bólusetningum varðar, eins og lögð er áhersla á í áætluninni Global Vaccine Action Plan (GVAP), en sú áætlun miðar að því að fækka dauðsföllum um milljónir með betra aðgengi að bóluefnum og bólusetningum um allan heim fyrir árið 2020.

Áætlað er að á árinu 2013 hafi 21,8 milljónir ungbarna verið án bólusetninga gegn þeim lífshættulegu sjúkdómum sem bólusett er gegn. Ástæður þessa eru m.a. skortur á bóluefnum í þeim löndum sem um ræðir. Auk þess sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu er af skornum skammti, skortur er á upplýsingum um gagnsemi bólusetninga og skortur á pólitískum vilja og fjármagni til að framkvæma ungbarnabólusetningar.

Bætt aðgengi að bólusetningum
Með alþjóðlegu bólusetningavikunni vill WHO hvetja lönd um allan heim til að bæta aðgengi að bólusetningum og flýta aðgerðum sem auka þátttöku í bólusetningum.

Á heimsvísu eru um 16% barna óbólusett gegn mislingum. Af þjóðum heims eiga 65 lönd enn eftir að ná 90% þátttöku í bólusetningu gegn barnaveiki, stífkrampa og kikhósta. Þá þurfa 24 lönd að leggja aukna áherslu á að bólusetja mæður og nýbura gegn stífkrampa, en áætlað er að á árinu 2013 hafi 49.000 nýfædd börn dáið af völdum stífkrampa, sem er 94% fækkun á dauðsföllum frá því á árinu 1980.

Með bólusetningum er árlega komið í veg fyrir ótímabæran dauða 2–3 milljóna barna í heiminum öllum. Markmiðið með bólusetningum er að hindra farsóttir, útrýma smitsjúkdómum og draga úr hættulegum afleiðingum þeirra. Bólusetningar vernda gegn smitsjúkdómum á öllum aldursskeiðum.

Á Íslandi hafa bólusetningar komið í veg fyrir margar alvarlegar sýkingar og greinast hér vart lengur þeir sjúkdómar sem bólusett er gegn.

Á heimasíðu sóttvarnalæknis má finna töflu yfir þá sjúkdóma sem bólusett er gegn. Taflan sýnir hvaða fæðingarárgangar hafa verið bólusettir í almennum bólusetningum á Íslandi og gegn hvaða smitsjúkdómum. Þar má líka finna lista sem sýnir hversu alvarlegar afleiðingar sjúkdóma sem bólusett er gegn geta haft og hver dánartíðni þeirra er.

Báðar þessar töflur má einnig finna á Facebook Sóttvarnalæknis.
Sjá nánar á vef WHO.

Heimild: landlaeknir.is