Fara í efni

Sumar, börn og slysahættur

Það er mjög freistandi að leyfa börnum að vera lengur úti á kvöldin yfir sumartímann. Veðrið er oft gott og nóttin björt. En hafa foreldrar gert sér grein fyrir því að barnið er kannski búið að vera að leika sér úti allan liðlangan daginn án hvíldar.
Börn og slysahætta
Börn og slysahætta

Það er mjög freistandi að leyfa börnum að vera lengur úti á kvöldin yfir sumartímann. Veðrið er oft gott og nóttin björt. En hafa foreldrar gert sér grein fyrir því að barnið er kannski búið að vera að leika sér úti allan liðlangan daginn án hvíldar.

Þreyta er oft orsök þess að börn eru að lenda í slysum, um og eftir kvöldmatartímann. Börnin gera sér ekki grein fyrir því að þau eru orðin úrvinda af þreytu og eru þau ekki eins vel á varðbergi gagnvart þeim hættum sem eru í nánasta umhverfi þeirra.

Á sumrin fara börn oftar lengra frá heimilinu en þau myndu ella gera og skoða ýmislegt nýtt sem á vegi þeirra verður. Oft eru það hættulegustu staðirnir sem hafa mesta aðdráttaraflið.

Nýbyggingar

Þeir sem búa í hverfum þar sem byggingarvinna er í gangi ættu að athuga það að gengið sé kirfilega frá grunnum og byggingum þannig að börn komist ekki óhindrað inn á þessi svæði. Alvarleg slys hafa orðið þegar að börn hafa klifrað á vinnupöllum dottið niður og fengið steypustyrktarjárn í gegnum líkamann. Þarna eru líka oft hættuleg efni og ekki má gleyma rafmangstækjum sem skilin eru eftir í sambandi með þeim afleiðingum að börn hafa sagað af sér fingur.

Sundferðir

Mikilvægt er að foreldrar kynni sér sundkunnáttu barna sinna ef senda á þau ein í sund. Í reglugerð um öryggi á sundstöðum stendur að börn sem verða 10 ára á almanaksárinu geti farið ein í sund eftir 1. júní það ár. Þetta á einungis við um þau börn sem eru orðin synd. Þá verða sundgestir að hafa náð 15 ára aldri til að mega fara með barn yngra en 10 ára í sund án fylgdar fullorðinna. Það er á ábyrgð foreldranna að senda barnið ekki eitt nema að það sé fullkomlega öruggt. Samkvæmt upplýsingum frá sundkennurum þá eru ekki öll börn orðin synd á þessum aldri.

Setlaugar

Yngri börn hafa verið hætt komin þegar þau laumuðu sér ein í setlaugar. Þeir sem eru með setlaug í garðinum ættu alltaf að ganga frá þeim með læstu loki, þannig að óviðkomandi komist ekki í hana. Þeir sem leyfa börnum að leika sér í setlaugum ættu aldrei að láta börnin leika sér án eftirlits. Ekki er nægjanlegt að tæma vatn úr setlaug. Slys hafa orðið þegar rusl safnaðist fyrir í setlaugum með þeim afleiðingum að regnvatn safnaðist fyrir.

Línuskautar, hjólabretti og hlaupahjól

Mikilvægt er að börn séu einungis á þessum farartækjum á öruggum stöðum þar sem ekki eru bílar. Hafa þarf í huga hversu auðvelt það er að detta á þessum búnaði og það er því mikilvægt að vera með olnboga-, úlnliðs- og hnjáhlífar og að sjálfsögðu með hjálm. Mikilvægt er að hlaupahjólin séu stillt í rétta hæð fyrir barnið. Stillingin er rétt þegar að barnið er með olnbogana bogna í mittis hæð. Það getur verið hættulegt ef stýrið er oft hátt, sér í lagi ef barnið fellur fram fyrir sig og fær þá stýrið í magann.

Foreldrar þurfa að fylgist með ástandi hlaupahjóla, reiðhjóla, línuskauta og hjólabretta því mörg slæm slys má rekja til þess að búnaðurinn var bilaður.

Reiðhjól

Því fylgir mikil ábyrgð að kaupa reiðhjól fyrir barn undir 12 ára aldri. Það er mikilvægt að velja hjól með bremsum sem börnin ráða vel við. Ekki kaupa of flókin hjól með mörgum gírum, slíkur búnaður krefst mikillar leikni og þessi hjól þurfa mikið viðhald. Mikilvægt er að foreldrar kenni börnum sínum umferðarreglur hjólreiðamanna og setji barninu skilyrði um hvar þau megi hjóla. Ekki kaupa hjól vel við vöxt. Barn á grunnskólaaldri á að ná niður með öðrum fæti þegar að það situr á sæti hjólsins. Börn yngri en 5-6 ára eru ekki tilbúin að hjóla á tvíhjólum með eða án hjálpardekkja án eftirlits foreldra.

Hjálmar

Öll börn 15 ára og yngri eiga lögum samkvæmt að nota reiðhjólahjálm. Auðvitað ættu allir sem hjóla að vera með hjálm. Hafi barnið ekki notað hjálminn lengi þarf að byrja á því að kanna hvort hann passi ennþá. Einnig er mikilvægt að kanna ástand hjálmsins, hvort hann sé illa farinn eftir að hafa t.d.verið hent oft í gólfið eða verið skemmdur á annan hátt. Við kaup á nýjum hjálmi er mikilvægt að barnið komi með í verslunina. Best er að mæla ummál höfuðsins en það er gert yfir breiðasta hluta þess. Stærðir hjálma hlaupa alltaf á 5-6 sm. Miðstærð af hjálmi er 53-58 sm og hann passar þá fyrir barn sem er með höfuðmálið 54-56 sm. Mjög mikilvægt er að nota einungis viðurkennda hjálma en þeir bera merkinguna CE.

Útigrillin

Mikilvægt er að börn séu ekki að fikta í gasgrillum en slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar. Kolagrill eru oft skilin eftir sjóðheit án eftirlits en slíkt hefur valdið mörgum brunaslysum. Athugið að kveikilögur fyrir grillkol er mjög hættulegt efni sem getur valdið varanlegum skaða á lungum ef barnið sýpur á honum.

Hér á undan hafa einungis nokkrir þættir verið taldir upp sem tengjast sumrinu. Það er mikilvægt fyrir foreldra að kynna sér hvar börnin eru að leika sér og að fylgst sé með þeim allan tíman. Börn yngri en 10 ára geta ekki forðast þær hættur sem eru auðsýnilegar okkur fullorðna fólkinu í umhverfinu vegna skorts á líkamlegum og andlegum þroska. Það er því á ábyrgð okkar fullorðna fólksins að sjá til þess að börn verði ekki fyrir slysum.

Heimild: doktor.is