Fara í efni

Hönnun og heilbrigði - kvennadeild Landspítala Íslands, 28.október frá 16:30 - 17:30

Undanfarin misseri hefur verið unnið að endurbótum á kvennadeild Landspítalans í einstöku þverfaglegu samstarfi hönnuða, Líf styrktarfélags, sérfræðingum kvennadeildar og Landspítala. Samstarfið miðar að því að innleiða hönnunarhugsun við endurbætur og sköpun framtíðarsýnar kvennadeildar.
Hönnun og heilbrigði - kvennadeild Landspítala Íslands, 28.október frá 16:30 - 17:30

Undanfarin misseri hefur verið unnið að endurbótum á kvennadeild Landspítalans í einstöku þverfaglegu samstarfi hönnuða, Líf styrktarfélags, sérfræðingum kvennadeildar og Landspítala.

Samstarfið miðar að því að innleiða hönnunarhugsun við endurbætur og sköpun framtíðarsýnar kvennadeildar.


Unnið er út frá þeirri grundvallarhugsun að fólk eigi að vera í öndvegi og útgangspunktur hönnunarinnar er bætt upplifun þeirra sem í hlut eiga, enda sýna rannsóknir fram á að manngert umhverfi hefur áhrif á líðan fólks og því mikilvægt að stuðla að því að rýmið og viðmótið styðji við vellíðan og heilbrigði. 

Þann 28.október opnum við nýtt móttökusvæði kvennadeildarhússins, sem er ætlað að bæta aðstöðu þeirra sem þangað leita. Í þessum hluta verkefnisins er sérstakri athygli beint að merkingakerfi, viðmóti og upplýsingagjöf, enda ljóst að stór hluti skjólstæðinga fyllist óöryggi og streitu við það að leita uppi þá þjónustu sem þeir þurfa.

Samstarfið hófst vorið 2012 með námskeiði í upplifunarhönnun við Listaháskóla Íslands, en frá þessum tíma til þar til nú, hafa auk móttökusvæðisins nokkur minni rými kvennadeildar einnig verið endurhönnuð út frá sömu grunngildum.

Breytingarnar hafa nú orðið að veruleika m.a.fyrir tilstuðlan Líf styrktarfélags kvennadeildar og ötuls hugsjónastarfs samstarfsaðilanna. Verkefnið er gott fordæmi um tækifæri til nýsköpunar innan rótgróinna og mikilvægra stofnana íslensks samfélags.

Móttökusvæðið verður opnað með viðhöfn þann 28.október nk. kl 16:30 - 17:30 á kvennadeild Landspítalans (gengið inn af bílaplani við Barónsstíg). 

Þess má geta að Guðmundur sundkappi synti 24 tíma sund og safnaði áheitum til styrktar Líf. Svo það má þakka honum og öllum þeim sem áttu einhvern þátt í að safna fyrir Líf svo að þessar breytingar gætu orðið að veruleika. 



Hönnuðir verkefnisins eru;
Hafsteinn Júlíusson og Karítas Sveinsdóttir, HAF Studio
Hlín Helga Guðlaugsdóttir upplifunarhönnuður, aðjúnkt við Listaháskóla Íslands
Lóa Auðunsdóttir grafískur hönnuður, aðjúnkt við Listaháskóla Íslands.