Fara í efni

VIÐTALIÐ: Bjarni Fritzson í skemmtilegu viðtali og hvað er Út fyrir kassann?

Bjarni er menntaður í sálfræði og á sjálfstyrkingafyrirtækið Út fyrir kassann.
VIÐTALIÐ: Bjarni Fritzson í skemmtilegu viðtali og hvað er Út fyrir kassann?

Bjarni er menntaður í sálfræði og á sjálfstyrkingafyrirtækið Út fyrir kassann.

Fullt nafn:

Bjarni Fritzson

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan ert þú?

Ég er 37 ára, giftur þriggja barna faðir úr Seljaverfinu. Ég hef verið viðloðandi íþróttir frá því að ég man eftir mér, menntaður í sálfræði, fyrrum atvinnumaður og landsliðsmaður í handbolta, eigandi sjálfstyrkingafyrirtækisins út fyrir kassann og þjálfari meistaraflokks karla hjá ÍR og U-20 landsliðs Íslands í handbolta. Fyrrum meðlimur rapp hljómsveitarinnar 3TanClan, skrifað 2 bækur, gefið út DVD disk og er stofnandi Synir Breiðholts.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ætli þau helstu séu ekki handbolti, snjóbretti, lyftingar, hjól, lestur góðra bóka, kvikmyndir og ýmiss konar ævintýramennska.

Átt þú bakgrunnur í íþróttum?

Já hef alltaf verið mikill íþróttastrákur, ég æfði allt sem ég mátti æfa þegar ég var yngri meðal annars handbolta, fótbolta, badminton, borðtennis, körfubolta og var svo mikið í hlaupum og á sem dæmi enn píptest metið í Seljaskóla. Mest var ég þó í handbolta og fótbolta og náði því að komast í 16 ára landsliðið í báðum greinum. Valdi svo handboltann sem varð svo mitt atvinnutæki.

Segðu okkur aðeins frá „Út fyrir kassann“ og hvaðan hugmyndin kom?

Ég og Kristín skrifuðum bókina STRÁKAR sem gekk mjög vel og í kjölfarið langaði okkur að vinna meira saman. Við ákváðum að búa til sumarnámskeið sem myndi leggja áherslu á sjálfstyrkingu í gegnum upplifun og skemmtun. Við vildum fara með krakkana aðeins út fyrir sinn þægindaramma og hjálpa þeim að vinna alla þessu litlu sigra sem gefa okkur svo mikið. Úr varð sumarnámskeiðið “út fyrir kassann” sem varð síðar nafnið á fyrirtækinu okkar.

Nú bjóðið þið upp á mismunandi námskeið fyrir stúlkur og drengi, hver er munurinn á milli þessara námskeiða?

Munurinn á Stelpu og Stráka námskeiðunum er kannski einna helst sá að Kristín leggur höfuð áherslu á að efla sjálfsmynd stelpnana meðan vinna Bjarna með stákunum felst í því að ná betri árangri og þeir verði betri útgáfur af sjálfum sér. En við erum með nokkur námskeið sem eru fyrir stráka og stelpur saman eins og “út fyrir kassann” og “vertu óstöðvandi”.

Hvaða námskeið eru þið að bjóða upp á?

  • Öflugir Strákar fyrir 9-10 og 11-12 ára.
  • Öflugir Unglingsstrákar framhaldsnámskeið fyrir 13-15 ára
  • Stelpur 7-9 ára, 10-12 og 13-15 ára.
  • Út fyrir kassann sumarnámskeið fyrir stráka og stelpur 10-13 ára.
  • Vertu Óstöðvandi fyrir ungt íþróttafólk sem stefnir hátt fyrir 12-13 ára, 14-15 ára og 16-20 ára.
  • Efldu barnið þitt foreldra námskeið.

Hvernig er best að hafa samband við ykkur ef foreldrar vilja kynna sér málið betur?

Langbest að finna okkur á facebook undir Stelpur-Öflugir strákar - Út fyrir kassann eða Vertu Óstöðvandi. Þar má einnig finna helstu upplýsingar.

Hverjar eru algengustu spurningarnar sem þið fáið um námskeiðin?

Flestir vita nú orðið fyrir hvað við stöndum, þannig að ég fæ alla vega ekki mikið af spurningum um námskeiðin mín. Helstu spurningar snúa yfirleitt af því að gefa foreldrum ráð í tengslum við ýmiss konar mál sem þau er að vinna í með börnunum sínum.

Er algengt að ungmennin leiti til ykkar aftur eftir að þau ljúka fyrra námskeiðinu til að styrkja sig enn frekar og bjóðið þið upp á framhalds námskeið?

Við höfum verið með út fyrir kassann sumarnámskeið og svo sjálfstyrkingar námskeið fyrir stelpur og stráka á veturnar og það er mjög algengt að krakkar komi á bæði. Ég er í þessum töluðum að byrja með námskeið fyrir unglingsstráka og það var að miklu leyti vegna fjölda fyrirspurna frá foreldrum um framhaldsnámskeið.

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum – nefndu eitthvað þrennt?

Egg, lýsi og litlar skyr.is dósir.

Hver er uppáhalds maturinn þinn?

Ég elska gott kjöt, lamb eða naut með béarnaise, gratíneruðum kartöflum og rauðvíni. Er líka mikill hamborgaramaður og er ribeye borgarinn minn ómótstæðilegur.

Ef þú ætlar að gera vel við þig, hvað er þá í mestu uppáhaldi?

Þá skelli ég mér í nudd og í Laugar spa og slaka á, eða græja góðan mat með frúnni.

Hvar sérðu þig fyrir þér eftir um það bil 5 ár?

Frábær spurning, stutta svarið við því er að ég veit það ekki. Lengri útgáfan er sú að eftir að hafa verið að stefna að langtímamarkmiðum allt mitt líf, þá er ég svolítið að lifa í núinu núna og fókusa meira á skammtímamarkmið og reyna að gera það sem ég er að gera í dag eins vel og ég get og sjá hvert það tekur mig.