Fara í efni

Dýrin í hálsaskógi

Það er ekki hægt að segja annað en að freistandi sé að skoða sönginn sem dýrin sungu öll saman og fjallaði um mat, já og næringu og sjá hvaða þekkingu Torbjörn Egner hafði á þeim tíma sem sagan er rituð.
Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir
Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir

Dýrin í hálsaskógi.

Dýrin í hálsaskógi eftir Torbjörn Egner hafa verið vinsæl á heimilum landsmanna í gegnum tíðina. Fyrst á formi bóka og LP platna en síðar á fjölum Þjóðleikhússins og á mynd diskum.

Það er ekki hægt að segja annað en að freistandi sé að skoða sönginn sem dýrin sungu öll saman og fjallaði um mat, já og næringu og sjá hvaða þekkingu Torbjörn Egner hafði á þeim tíma sem sagan er rituð. 

Svona hljómar vísan:

Þeir sem bara borða kjöt
og bjúgu alla daga
þeir feitir verða og flón af því
og fá svo illt í maga.

Það er ljóst að við fáum ekki öll þau næringarefni sem líkaminn okkar þarfnast úr kjöti einu saman. Kjöt gefur þó mikilvæg næringarefni eins og járn og B12-vítamín, auk góðra próteina.

Kjöt er frekar þungur matur og þungmeltur. Kjöt þarf hins vegar ekki að valda því að við fitnum ef við gætum þess að borða magurt kjöt og taka mesta skinnið af kjúklingnum þá er kjöt hluti af hollu og fjölbreyttu mataræði. Ef við borðum ekki grænmeti, ávexti og korn sem inniheldur trefjar þá hefur það áhrif á meltinguna og hægðirnar. 

Bjúgu og unnar kjötvörur, þar er annað uppi á teningnum, en almennt viljum við halda þeim í algeru lágmarki þar sem þær eru oftast unnar úr hráefni sem er af minni gæðum, fituríkara og inniheldur töluvert meira af mettaðri fitu en við viljum sjá dagsdaglega. Oft þarf líka að setja mikið af ýmiskornar, bindiefnum, rot- og þráavarnarefnum í vöruna sem er nokkuð sem við sleppum við ef við veljum aðallega óunnið kjöt.

En gott er að borða gulrótina,
grófa brauðið, steinseljuna,
krækiber og kartöflur
og kálblöð og hrámeti.

Grænmeti og þá hvaða grænmeti sem er af hinu góða. Sagt er að eftir því sem grænmetið er litsterkara þeim mun næringarríkara er það. Til dæmis tómatar (sem reyndar eru ávextir), gulrætur, paprika, steinselja, spínat, grænkál og annað dökkt kál

Grænmeti er ríkt af vítamínum og steinefnum sem oft eru nefnd fjörefni á íslensku og er það í raun réttnefni vegna þess að vítamín og steinefni aðstoða líkamann við að vinna orku úr fæðunni og fyrir líkamann að starfa eðlilega og vera hraustur. Grænmeti er einnig ríkt af trefjum sem bæta meltinguna eins og áður segir.

Gulrætur eru ríkar af beta-karótín sem er mikilvægt næringarefni sem hann getur einnig unnið A-vítamín úr en A-vítamín er mikilvægt fyrir heilbrigða sjón. Beta karótín er andoxunarefni sem ver frumur líkamans.

Brauð sem einn hópur matvæla á undir högg að sækja sem er mjög órættmætt því brauð geta verið hluti af hópnum; holl kolvetni. Það er ekkert að því að borða gróft brauð, það þarf hins vegar oft að skýra út fyrir fólki hvað gróft brauð er. Gróft brauð er brauð þar sem korn og fræ er sjáanlegt og þar sem trefjamagnið er 6 g eða meira í 100g brauðs. Grófkorna brauð með hollu áleggi er hluti af hollu mataræði og getur vel verið uppistaðan í hádegisverði t.d. með dós af skyri eða sem viðbót við matarmikið salat eða kjarngóða súpu.

Það er alveg sjálfsagt að hafa kartöflur sem hluta af hollu mataræði. Okkur er ráðlagt að skipta disknum okkar í þrjá jafna hluta þar sem kjötið og sósan er á 1/3, kartöflur (hrísgrjón, pasta) er á 1/3 og grænmeti á 1/3. Þessi skipting (hvort sem við borðum 1 eða 2 diska) ætti að hjálpa okkur að veita líkamanum það sem hann þarf að kolvetnum, próteinum, fitu og fjörefnum úr grænmeti.

Ber flokkast með ávöxtum og eru ber einnig oft nefnd ofurfæða sérstaklega ber eins og bláber og gojiber. Það fjörefni sem ber eru ríkust af er C-vítamín en það er, eins og beta-karótín, andoxunarefni. C-vítamín er einnig nauðsynlegt fyrir munnholið og bandvef líkamans.

Þá fá allir mettan maga,
menn þá verða alla daga
eins og lömbin ung í haga,
laus við slen og leti. 

Þetta er svolítið erfið fullyrðing en ég held að ég geti stutt þetta erindi heilshugar með vísan í erindin hér fyrir ofan, en bæta við að með því að hafa holl kolvetni í hæfilegu magni í hverri máltíð og með reglulegu millibili yfir daginn, má auka orkuna sem í boði er til að stunda hreyfingu og vera virkur yfir daginn, sem má heimfæra upp á að „vera laus við slen og leti“

Sá er fá vill fisk og kjöt
hann frændur sína étur
og maginn sýkist molnar tönn
og melt hann ekki getur. 

Fiskur og kjöt er hluti af hollu mataræði og fiskur 2-3 sinnum í viku er það sem Landlæknisembættið ráðleggur okkur en fáir eru þó að ná að mæta þeirri ráðleggingu. Fiskur er gífurlega mikilvægur þáttur í hollu mataræði sér í lagi með tilliti til omega-3 fitusýranna sem hann inniheldur en við erum að fá of lítið af þeim á móti of miklu af omega 6.

Þar sem þessi vísa er sungin af dýrunum í hálsaskógi þá er s.s. ekki skrítið að þetta erindi sé þarna þar sem öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir og ekki að éta hvert annað.

Maginn meltir síður ef grænmeti, grófmeti og trefjar er ekki til staðar, þetta er því rétt en með vísan í „sýkist“ þá er mögulega verið að vísa í ýmiskonar ristilvandamál sem gjarnan fylgja trefjasnauðu fæði.

En gott er að borða gulrótina,
grófa brauðið, steinseljuna,
krækiber og kartöflur
og kálblöð og tómata. 

Tómatar bætast hér við listann og er það gott, ávalt gott að minna á tómatana en þeir eru ríkir af efni sem heitir lycopene og er mikilvægt fyrir varnarkerfi líkamans, álíka og andoxunarefnin sem ég nefndi hér fyrir ofan.

Hann verður sæll og viðmótsljúfur
og vinamargur, heilladrjúgur
og fær heilar, hvítar tennur,
heilsu má ei glata. 

Þetta erindi er erfitt í næringarlegu samhengi, en hér er líklega verið að vísa í það að sá sem ekki étur önnur dýr étur ekki vini sína og því þyki öllum vænt um hann og finni sig öruggan í návist hans. Einnig að sá sem ekki ræðst á önnur dýr til að éta þau og fær sér þess í stað gras og ber,  grænmeti og brauð, hann sé í minni áhættu að slasa sig.

Varðandi tennurnar þá sé ég ekkert samhengi þar fyrir utan að sá sem bryður bein, eins og t.d. hundar gera þeir eiga á hættu að brjóta þær!

Heilsu má ei glata það er rétt og þar þurfum við að gæta að næringu, hreyfingu við hæfi, hvíld og andlegri heilsu svo og að forðast skyndilausnir og ýmiskonar kreddur og kukl sem verið er að reyna að selja okkur.

Hvergi er minnst á mjólk og ost, kannski hefur verið erfitt að yrkja um það, en þessar fæðutegundir eru mikilvægur hluti af hollu mataræði veitir kalk fyrir bein, tennur og vöðva, einnig prótein sem mikilvæg eru til að viðhalda vöðvamassa líkamans og styrkja bein.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ljóst að foreldrar bera ábyrgð á því hvaða orku og næringu líkami barna þeirra fær og við sem erum fullorðin, það sama á við um okkur. Það er nefnilega engin verksmiðja inni í okkur sem framleiðir næringarefni heldur fáum við orku og næringarefni úr matnum sem við borðum. Því er best að borða sem mest af lítið unnum matvælum og elda sem mest frá grunni heima fyrir og þegar þannig stendur á og tíminn er naumur að velja skyndibita úr þeirri breiðu flóru holls skyndibita sem mikill metnaður er lagður í hér á Íslandi í dag.
 

Fríða Rún Þórðardóttir 
Næringarráðgjafi, Næringarfræðingur B.S.c, M.S.c, Íþróttanæringarfræðingur