Fara í efni

Fæði barna á leikskólum í Reykjavík - Hvar erum við stödd árið 2014?

Heitar máltíðir í skólum – kostir en einnig gallar.
Höfundur greinar
Höfundur greinar

Heitar máltíðir í skólum – kostir en einnig gallar

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að bjóða upp á heitan hádegisverð í öllum grunnskólum á

Íslandi eins og hefð er fyrir í leikskólum. Þó almennt teljist það af hinu góða þá hefur slíkt í för með sér aukna áhættu meðal ákveðins hóps barna, þeirra sem eru með fæðuofnæmi og fæðuóþol. Þessi börn og forráðamenn þeirra verða að geta gengið að því sem vísu að fæða barnanna sé rétt meðhöndluð innan leikskólans eða grunnskólans. Í þeim tilfellum sem maturinn er aðkeyptur, er nauðsynlegt að þar sé gætt fyllsta öryggis og samskipti milli forráðamanna, skóla og þess sem framleiðir matinn séu skýr og hnökralaus. Starfsmenn leik- og grunnskólanna þurfa einnig að kunna að bregðast skjótt og rétt við ef barn í þeirra umsjón neytir fæðu með ofnæmis- eða óþolsvaka.

Áhugi minn er vakinn - eða honum þröngvað upp á mig

Þegar fjögurra mánaða gömul dóttir mín greindist með mjólkurofnæmi meðan hún var enn á brjósti opnaðist fyrir mér ný veröld. Þá fyrst skildi ég baráttu fólks með fæðuofnæmi og fæðuóþol. Þá fyrst sá ég hvað vitneskja almennings, fyrirtækja og matreiðslumanna á fæðuofnæmi er að öllu jöfnu takmörkuð. Áhugi minn var sannarlega vakinn á málefninu – hvernig gef ég barninu mínu að borða, mat sem er öruggur heilsu þess? Ég sá fyrir mér að mín biðu könnunarleiðangrar í verslanir og að nesta barnið mitt upp fyrir stóra sem smáa viðburði. Sem betur fer sá ég einnig jákvæðu hliðina – það að nýta þessa reynslu mína öðrum til góðs. Þegar ég fór að kafa dýpra í fræðin sá ég að mig vantaði meiri upplýsingar, til dæmis hvernig er staðið að matarmálum á leikskólum í Reykjavík.

Markmiðið með rannsókninni

Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að um 2% barna undir tveggja ára aldri hefur fæðuofnæmi, en fáar rannsóknir eru um algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols leikskólabarna, og þá sérstaklega hvað varðar fæðuóþol.

Í samvinnu við Fríðu Rún Þórðardóttur formann Astma- og ofnæmisfélags Íslands, leiðbeinanda minn Jóhönnu Eyrúnu Torfadóttur næringarfræðing og Selmu Árnadóttur móður ofnæmisbarns var útbúinn ítarlegur spurningalisti og faglega unnin netkönnun sem send hefur verið til allra leikskólastjóra leikskóla Reykjavíkurborgar, 64 talsins.

Markmið með rannsókn okkar er að meta algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols meðal barna á leikskólum Reykjavíkurborgar. Einnig að öðlast yfirsýn yfir það hvernig staðið er að matarmálum fyrir þennan aldurshóp, nánar tiltekið hvort eldað er á staðnum eða hvort maturinn er aðkeyptur. Hvernig haldið er upp á afmæli og hver ber ábyrgð á fæðu fyrir þá sem eru með ofnæmi og óþol. Við viljum kanna þekkingu leikskólastarfsfólks á einkennum og meðferð við ofnæmislosti og vita hvernig staðið er að þjálfun þess.

Væntingar okkar

Von okkar er að öðlast raunhæfa og yfirgripsmikla yfirsýn yfir fæðutengd mál ofnæmis- og óþolsbarna innan leikskóla Reykjavíkurborgar. Þegar umfang þessa málaflokks hefur verið metið, þá fyrst er hægt að bregðast við á réttan og skilvirkan hátt. Við vonumst því til að rannsókn okkar verði nýtt við leiðbeiningar um hvernig skal sjá fyrir og bæta öryggi barna með fæðuofnæmi og fæðuóþol í skólakerfinu í Reykjavík. Einnig að fleiri sveitarfélög geti nýtt spurningalistann og niðurstöður rannsóknarinnar til að bæta sína aðkomu að matarmálum og öryggi barna á leikskólum á Íslandi.                                                                                        

Höfundur er Aðalheiður Rán Þrastardóttir meistaranemi í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.