Fara í efni

Franskt jafnvægi

Ég gerðist svo fræg um daginn að vera boðin í miðdagsverð til franskrar fjölskyldu. Frakkar eru þekktir fyrir að kunna að njóta góðs matar. Jafnframt er lífsstíll þeirra heilbrigðari en margra annarra á Vesturlöndum. Hinu þekkta franska eldhúsi hef ég hingað til bara kynnst á veitingahúsum. Mér þótti þess vegna forvitnilegt að borða með franskri fjölskyldu í litlu þorpi nálægt svissnesku landamærunum. Mig langaði að fá smjörþefinn af því hvernig Frökkum tekst að tvinna saman nautn og hollustu.
Franskt jafnvægi

Ég gerðist svo fræg um daginn að vera boðin í miðdagsverð til franskrar fjölskyldu.

Frakkar eru þekktir fyrir að kunna að njóta góðs matar. Jafnframt er lífsstíll þeirra heilbrigðari en margra annarra á Vesturlöndum. Hinu þekkta franska eldhúsi hef ég hingað til bara kynnst á veitingahúsum.

Mér þótti þess vegna forvitnilegt að borða með franskri fjölskyldu í litlu þorpi nálægt svissnesku landamærunum. Mig langaði að fá smjörþefinn af því hvernig Frökkum tekst að tvinna saman nautn og hollustu.

Það var tekið á móti okkur með kostum og kynjum, og á fjórum klukkustundum voru bornir á borð fjórir réttir, hver öðrum betri. Byrjað var á salati með ólífum, tómötum, mozarellaosti og einhvers konar salatsósu úr ólífuolíu og ediki. Með þessu voru bagettur. Svo kom aðalrétturinn, kryddpylsur og grillspjót með kjöti, lauk, papriku og tómatbitum. Þetta var borið fram með hrísgrjónum, bagettu og grænmetiskássu nokkurri sem kölluð er ratatouille (“ratatúí” með íslenskri stafsetningu). Þessi kássa var sérlega ljúffeng, með tómatgrunni og alls konar grænmeti og kryddi útí. Eftir klukkutíma meltu voru bornir fram franskir og svissneskir ostar og meira af bagettum. Í kjölfarið fylgdi svo kaka sem minnti á sandköku og með henni var borin fram skál með niðurskornum ferskum ávöxtum. Með öllum réttum var að sjálfsögðu dreypt á guðaveigum, en árgang, tegund og uppruna veiganna kann ég ekki að nefna.

Takið eftir jafnvæginu og fjölbreytninni í hverjum rétti: Ferskt grænmeti, salatolía og brauð. Kjöt, grænmeti, hrísgrjón og brauð, ostar og brauð, kaka og ávextir.

Franskar bagettur úr hvítu hveiti eru afskaplega næringarsnauður matur. Þær gefa orku á formi kolvetna sem hækka blóðsykurinn hratt, en blóðsykurshækkunin dempast ef þær eru borðaðar í litlu magni með öðrum mat. Bagettur voru meðlæti með þremur réttum af fjórum, en með þessum góða og mikla mat var ekki pláss eða þörf fyrir mikið magn af bagettum.

Rautt kjöt er góður prótein- og járngjafi, en inniheldur mettaða fitu sem ekki er gott að borða í of miklu magni. Aðalrétturinn í þessari frönsku máltíð samanstóð aðallega af grænmeti, grilluðu á spjótunum, og soðnu í kássunni. Kjötið var bara lítill hluti af máltíðinni.

Mjólkurvörur eru góður kalkgjafi, og fátt stenst samanburð við franska og svissneska osta þegar maður er kominn á bragðið. Ostur í kjölfar heitrar aðalmáltíðar og á undan sætum eftirrétti, er bara snilld.

Kökur gleðja munn og maga, en þó aðallega munninn. Á Íslandi eru kökur oft bornar fram með rjóma, en þessi franska fjölskylda bar fram ávaxtasalat með kökunni, og var áherslan eiginlega fremur á ávextina en kökuna, þannig að segja má að kakan hafi verið meðlæti með ávöxtunum.

Grænmeti og ávextir eru næringarþétt matvæli, sem þýðir að þar er mikið af næringarefnum og hlutfallslega lítið af hitaeiningum. Næringarefnin sem við fáum úr grænmeti og ávöxtum eru óteljandi, þetta eru bæði vítamín, steinefni, andoxunarefni og alls kyns plöntusterólar sem auka heilbrigði okkar. Í þessari frönsku máltíð voru grænmeti og ávextir uppistaðan í þremur réttum af fjórum.

Það er þess vegna óhætt að mæla með frönskum áhrifum á íslenska matarmenningu. Í þessari frönsku máltíð var áherslan á fjölbreyttan og næringarríkan mat, sem jafnframt var dýrðlega góður á bragðið. Við hjónin fórum södd og sæl heim frá þessum gestrisnu hjónum, en þau eru nú að flytja til Íslands með börn og buru.

Anna Ragna Magnúsardóttir, næringarfræðingur 

Grein af vef hennar heilraedi.is