Fara í efni

Gigt - Hreyfing eykur lífsgæði

Þættir eins og slitbreytingar í liðum, ýmis einkenni gigtarsjúkdóma, kyrrseta, andlegt og líkamlegt álag eiga nokkuð sameiginlegt. Hvað skyldi það nú vera? Jú, þeir leiða oft til verkja og óþæginda í stoðkerfi líkamans. Stoðkerfið samanstendur m.a. af vöðvum og liðum. Ofangreint getur einnig haft áhrif á aðra þætti, s.s. valdið höfuðverk, þreytu, truflað svefn og haft áhrif á geðslag.
Gigt - Hreyfing eykur lífsgæði
Þættir eins og slitbreytingar í liðum, ýmis einkenni gigtarsjúkdóma, kyrrseta, andlegt og líkamlegt álag eiga nokkuð sameiginlegt.

Hvað skyldi það nú vera?

Jú, þeir leiða oft til verkja og óþæginda í stoðkerfi líkamans. Stoðkerfið samanstendur m.a. af vöðvum og liðum. Ofangreint getur einnig haft áhrif á aðra þætti, s.s. valdið höfuðverk, þreytu, truflað svefn og haft áhrif á geðslag.

Algeng og skiljanleg viðbrögð við stoðkerfisóþægindum og þreytutilfinningu eru að taka því rólega, reyna sem minnst á sig í von um að líðanin lagist! Er það endilega best?

Svarið við því er einfaldlega nei! Rannsóknir síðustu áratuga eru samdóma um að í langflestum tilfellum er það hreyfing við hæfi en ekki hvíld sem bætir líðan. 

Hvað er það við hreyfinguna sem gerir hana svona áhrifamikla? 

  • Eykur blóðflæði um líkamann sem skilar sér í betri starfsemi alls líkamans.
  • Styrkir vöðva sem gerir það að verkum að við höldum líkamlegum styrk og jafnvægi.
  • Álag á vöðva við hreyfingu styrkir beinin og vinnur þannig gegn beinþynningu og brjóskeyðingu.
  • Vel þjálfaðir vöðvar örva efnaskipti og stuðla þannig að þyngdarstjórnun.
  • Dregur úr þreytu – eykur orku.
  • Stuðlar að slökun.
  • Jákvæð áhrif á lungu, hjarta- og æðakerfi.
  • Jákvæð áhrif á ónæmiskerfi.
  • Jákvæð áhrif á skapferli, dregur m.a. úr þunglyndi og kvíða.
  • Jákvæð áhrif á hvernig við upplifum líkamann, betri sjálfsímynd.
  • Bætir svefn.
  • Bætir kynlíf.
  • Þjálfun í heild dregur úr neikvæðum áhrifum hækkandi aldurs.

Og svona má lengi telja! Í heildina má segja að hreyfing bæti lífsgæði í alla staði!

Eins og flestir eru sammála um í dag, þá er ekki endilega aðalmálið að bæta árum við lífið heldur lífi við árin! Þá kemur regluleg hreyfing svo sannarleg að miklu gagni. 

En hvernig á svo að fara að þessu?

Ef þú ert ekki vön eða vanur að stunda einhverja hreyfingu getur verið gagnlegt að skipuleggja líkamsþjálfun í samráði við viðeigandi fagaðila. Taka þarf tillit til líkamsástands og lífstíls og miða tíðni og álag við ástand og aðstæður hvers og eins. Gott markmið er að miða við að hreyfa sig skipulega 2-4 sinnum í viku á því álagi sem hver og einn þolir og bæta síðan við álagið hægt og rólega. Dæmi um hreyfingu eru gönguferðir, þjálfun í tækjasal, leikfimi við hæfi, jóga, stott-pilates, dans, golf og sund eða æfingar í vatni. Gott er að hafa fjölbreytni í þjálfun því þá er líklegra að sem flestir þættir séu þjálfaðir og það getur líka komið í veg fyrir æfingaleiða.

Það getur verið mikil áskorun að byrja reglubundna hreyfingu ef hún hefur ekki verið hluti af daglegu lífi áður. Þá getur verið gott að skoða hvað hentar. Þarftu stuðning frá öðrum til að koma þér af stað og halda þér við efnið? Þá hentar þér líklega betur að æfa í hóp eða með einhverjum félaga? Eða finnst þér best að vera engum háður og á eigin vegum? 

Það er mjög manneskjulegt að þurfa einhvern stuðning og aðhald og sjálfsagt að skoða hvað myndi gera iðkun hreyfingar af einhverju tagi auðveldari. 

Ávinningurinn er skýr: Betri líðan og meiri orka sem eykur getu til að taka þátt í og njóta daglegs lífs. 

Gangi þér vel! 
 

Margrét Gunnarsdóttir

Verkefnastjóri hópþjálfunar

Gigtarfélagi Íslands 

Grein af vef gigt.is