Fara í efni

Heilablóðfall: 1 af hverjum 5 eru yngri en 55 ára

Á Áströlsku heimasíðunni „Body and soul“ er fjallað um að heilablóðfall er ekki lengur aðeins vandamál eldra fólks þar sem hlutfall yngra fólks sem fær áfall hefur hækkað um allt að 25% á síðustu 20 árum. Einnig er farið yfir hvað veldur, hvernig þekkja megi einkenni og mikilvægi þess að leita sér hjálpar samstundis sé grunur um heilablóðfall.
Heilablóðfall
Heilablóðfall

Á Áströlsku heimasíðunni „Body and soul“ er fjallað um að heilablóðfall er ekki lengur aðeins vandamál eldra fólks þar sem hlutfall yngra fólks sem fær áfall hefur hækkað um allt að 25% á síðustu 20 árum. Einnig er farið yfir hvað veldur, hvernig þekkja megi einkenni og mikilvægi þess að leita sér hjálpar samstundis sé grunur um heilablóðfall.

Ef þú heldur að heilablóðfall sé aðeins vandamál sem þarf að hafa áhyggjur af þegar maður er orðinn 60 eða 70 ára og eftir það, þá þarftu að endurhugsa málið. Nýlegar tölfræðilegar upplýsingar gefa til kynna að heilablóðfall sé einnig að verða teljandi vandamál hjá Áströlum sem eru ungir, eða miðaldra.

Af þeim 50.000 heilablóðfalla sem tilkynnt eru í Ástralíu á ári hverju, þá eru 20% þeirra sem fá heilablóðfall einstaklingar undir 55 ára aldri. Þetta eru samskonar niðurstöður og alþjóðleg rannsókn sem gerð var af Aukland University of Technology í Nýja Sjálandi fékk, en sú rannskókn leiddi í ljós að sá fjöldi fólk sem fékk heilablóðfall fyrir 65 ára aldur hefur hækkað um 25% á síðustu tveimur áratugum. Þessi aldurshópur er nú 31% af heildarfjölda þeirra sem fá heilablóðfall í heiminum.

Connie Digolis, framkvæmdastjóri Alþjóðlegu heilablóðfalls samtakanna segir að sum tilvik heilablóðfalls hjá yngri og miðaldra fólki megi koma í veg fyrir, en það veltur á nokkrum lykilatriðum í daglegu lífi.

Digolis segir heilablóðfall aðallega verða sökum ákveðins lífstíls og að það sé því ýmisslegt sem hægt sé að gera til að minnka þessar tölur. Hún segir valdið vera hjá manneskjunni sjálfri og felist í því að temja sér heilbrigðari lífstíl til að forðast heilablóðfall. Hún segir að þrjá fjórðu hluta heilablóðfalla megi forðast ef fólk áttar sig á að það er í hættu og reynir að minnka hættuna með breytingum á lífstíl.

Af hverju stafar þessi aukna hætta á heilablóðfalli hjá yngri kynslóðum?

Heilablóðfall er að hafa áhrif á yngri aldurshóp en áður þar sem aukning hefur verið í slæmum lífstílsákvörðunum hjá fólki. Reykingar, hár blóðþrýstingur, óhollt mataræði, skortur á hreyfingu, offita og hátt kólestról eru allt áhættuþættir, og þeir eru smátt og smátt að verða hluti af daglegu lífi í auknum mæli hjá Áströlum.

Samkvæmt nýjustu Áströlsku heilsukönnuninni, þá voru 54,4% karla og kvenna á aldrinum 25 til 34 ára í yfirþyngd eða offitu. Þessi tala hækkar upp í 65% í aldurshópnum 35 til 44 ára.

Þessi yfirþyngd getur leitt til hærra kólestróls og sykursýki, sem eru einnig alvarlegir áhættuþættir fyrir heilablóðfall.

Digolis segir að aukinn fjöldi fólks sé með lélegt mataræði og hreyfi sig lítið, og sé því með aukna líkamsfitu. Hún segir að tækni og vélar hafi tekið yfir á sumum vinnustöðum þannig að við sinnum ekki sömu líkamlegu vinnu og fyrri kynslóðir. Hún segir okkur einnig hafa greiðara aðgengi að skyndibita, og fjölskyldur virðast vera í meiri tímaþröng en áður þannig að maturinn sem borinn er á borð er oft meira unninn og með meira magni af fitu, sykri og salti.

Slíkur matur getur leitt til þess að það byggist upp fitulag innan í æðunum sem takmarkar blóðflæði. Þetta fitulag getur síðan gefið sig eða orðið að kekki sem fer upp í heila og veldur heilablóðfalli.

Hvað veldur heilablóðfalli?

Það er talað um tvær tegundir heilablóðfalls: heilablóðfall sem verður vegna þess að blóðkökkur (blóðtappi) stíflar æðina og truflar þannig blóðflæðið, þetta kallast „blóðþurrðar heilablóðfall“ (e. ischaemic stroke) og um fjögur af hverjum fimm heilablóðföllum falla undir þennan flokk. Hin tegundin er „blæðandi heilablóðfall“ (e. haemorrhagic stroke), en það verður þegar sprunga kemur í æðavegg í æð í heilanum. Þetta veldur því að blóðið lekur inn í heilann og stoppar flæði súrefnis og næringarefna til heilans.

Þegar heilasellur fá ekki súrefni og næringarefni þá deyja þær. Sumar heilasellur deyja fljótlega eftir að heilablóðfall verður, aðrar geta lifað af í nokkrar klukkustundir, en sökum þessa er mjög mikilvægt að fá læknisaðstoð um leið og grunur er um heilablóðfall. Skjót meðhöndlun getur orðið til árangursríkari bata.

Þekktu einkennin

Prófessor Sandy Middleton, forstjóri Nursing Research Institute við St Vincent & Mater Health Sydney, segir að vanþekking og misskilningur sé viðloðandi alvarleika heilablóðfalls, sem hún lýsir sem „Öskubusku hjarta-og æðasjúkdóma“.

Middleton segir að ólíkt hjartaáfalli, þá sé það óalgengt að upplifa sársauka við heilablóðfall – algengari einkenni eru doði, þróttleysi, erfiðleikar með tal, að geta ekki lyft handleggjum og dofna í andliti. Hún segir einnig að fólk sé oft tregt til að gera mál úr þessu, en heilablóðfall er neyðartilvik og nauðsynlegt er að komast á sjúkrahús sem fyrst. Ekki eigi að bíða og sjá hvernig líðanin er næsta morgun – það gæti haft mjög slæm áhrif.

Þýtt af vefsíðu Body and Soul.

Hanna María Guðbjartsdóttir,
hannamaria@hjartalif.is

Heimild: hjartalif.is