Fara í efni

Hjartastopp – endurlífgun

Öðru hvoru heyrum við sögur af því að einstaklingur hafi fengið hjartastopp en vegfarandi sem átti leið hjá áttaði sig því hvað var að gerast, hringdi í 112 og byrjaði að hnoða. Þetta á sjálfsagt eftir að gerast oft í framtíðinni og þess vegna er mikilvægt fyrir hvern og einn að kynna sér hvernig bregðast skuli við í þessum aðstæðum.
Hjartastopp – endurlífgun

Öðru hvoru heyrum við sögur af því að einstaklingur hafi fengið hjartastopp en vegfarandi sem átti leið hjá áttaði sig því hvað var að gerast, hringdi í 112 og byrjaði að hnoða. Þetta á sjálfsagt eftir að gerast oft í framtíðinni og þess vegna er mikilvægt fyrir hvern og einn að
kynna sér hvernig bregðast skuli við í þessum aðstæðum.

Þessar leiðbeiningar hafa breyst töluvert á síðustu árum en ég hvet fólk eindregið til að fara á skyndihjálparnámskeið því það er hverri manneskju bæði hollt og gott.

Við fengum Davíð O Arnar yfirlækni á Hjartagátt LSH til að fræða okkur um hvernig best er að bregðast við, það getur bjargað mannslífum.

Breyttar áherslur i viðbrögðum við hjartastoppi

Hjartastopp er nokkuð algengt á Vesturlöndum og má áætla að hérlendis verði milli 100-200 hjartastopp á ári hverju. Hjartsláttartruflanir frá neðri hólfum hjartans, sleglunum, (sleglahraðtaktur og sleglatif) eru lang algengustu orsakir hjartastopps. Endurlífgun er ferli sem er framkvæmt á einstaklingum sem hafa farið í hjartstopp. Þetta ferli samanstendur af nokkrum mismunandi skrefum en í hugum flestra leikmanna samanstendur það kannski fyrst og fremst af munn við munn öndun og hjartahnoði.

Á síðustu árum hafa átt sér stað all nokkrar áherslubreytingar í endurlífgun. Mun meiri áhersla er lögð á rétt viðbrögð og inngrip þeirra sem verða vitni að hjartastoppinu. Dregið hefur verið úr vægi öndunaraðstoðar en þeim mun meiri áhersla lögð á hjartahnoð. Sjálfvirk rafstuðstæki sem hefur verið komið fyrir víða utan sjúkrahúsa auka möguleika á að beita slíkri meðferð snemma sem aftur eykur líkur á árangursríkri endurlífgun. Mikilvægi lyfjagjafar við endurlífgun hefur minnkað enda ekki ótvírætt að notkun þeirra bæti árangur. Kæling eftir hjartastopp er meðferð sem lofar góðu, ekki síst með tilliti til verndunar á heilastarfsemi.

Hjartastopp lýsir sér gjarnan þannig að viðkomandi hnígur skyndilega niður, missir meðvitund og svarar ekki áreiti. Ekki þarf lengur að staðfesta púlsleysi með þreifingu enda hefur komið í ljós að slíkt er ekki áreiðanlegt og getur tafið fyrir að endurlífgun sé hafin. Mikilvægi réttra viðbragða þeirra sem eru vitni að hjartstoppi er ótvírætt. Á undanförnum árum hefur verið reynt að einfalda þessi viðbrögð á þann hátt að sem flestir geti brugðist sem réttast við slíkum kringumstæðum.

Höfuðáherslan er nú lögð á að hringja í 112 og kalla strax eftir aðstoð, ekki síst til að fá hjartarafstuðstæki sem fyrst á vettvang. Meðan beðið er eftir frekari aðstoð skal framkvæma hjartahnoð á rétt fyrir neðan mitt bringubein, á hraðanum um 100 hnoð á mínútu. Þessi viðbrögð viðhalda blóðflæði að einhverju leyti til lykil líffæra eins og hjartans og heilans. Það eykur jafnframt líkur á að taktur sé þess eðlis að hann svari rafstuði þegar rafstuðstæki er komið á vettvang og getur hjartahnoð sömuleiðis dregið úr líkum á alvarlegum heilaskaða ef viðkomandi lifir af. Oft getur gripið um sig nokkur geðshræring hjá þeim sem verða vitni að hjartastoppi og því mikilvægt að leiðbeiningar um viðbrögð séu sem einfaldastar.

Öndunaraðstoð með munn við munn blæstri er ekki jafn mikilvæg og áður á allra fyrstu mínútunum eftir hjartastopp. Slagæðablóð er yfirleitt vel mettað af súrefni þegar einstaklingur hnígur niður skyndilega. Mikilvægara er að koma á blóðflæði heldur en að metta blóðið frekar. Öndunaraðstoð getur aukið þrýsting í brjóstholi sem dregur úr aðflæði blóðs til hjarta og þar af leiðandi blóðflæði til kransæða og heila. Sömuleiðis getur verið hætta á ásvelgingu ef miklu lofti er blásið í maga. Ef öndunaraðstoð er beitt leiðir það yfirleitt til þess að minni áhersla er lögð á hjartahnoðið.

Það getur verið líkamlega erfitt að framkvæma hjartahnoð, sérstaklega ef aðeins einn aðili framkvæmir slíkt og biðin eftir aðstoð tekur nokkrar mínútur. Ef fleiri en einn eru til vitnis er því mikilvægt að skiptast á að hnoða. Sjaldgæft er að valda alvarlegum óafturkræfum skaða með hjartahnoði þó brot á rifbeinum og bringubeini kunni að hljótast af. Endurlífgun er aðeins framkvæmd af vitnum í innan við helmingi tilfella hjartastoppa og því klárlega tækifæri til bóta hvað það varðar.

Í flestum tilfellum er þó ekki nóg að framkvæma eingöngu hjartahnoð. Alvarlegar sleglataktruflanir svara oftast nær ekki annari meðferð en rafstuðsgjöf á brjóstkassa. Slík inngrip eru oftast nær framkvæmd af sjúkraflutningsmönnum, sem hafa hlotið til þess sérstaka þjálfun, eða læknum. Á síðasta áratug hefur þetta breyst verulega með tilkomu sjálfvirkra rafstuðstækja. Þessi tæki eru handhæg og einföld í notkun. Þeim fylgja skýrar leiðbeiningar um notkun jafnt í máli (tækið talar til þeirra sem nota það) og myndum. Þau sinna alfarið taktgreiningu ásamt því að gefa rafstuð þegar það er viðeigandi. Það er því tiltölulega auðvelt fyrir þá sem hafa hlotið einfalda þjálfun að beita þessum tækjum og jafnvel fyrir leikmenn sem ekki hafa séð þau áður.

Þessi tæki eru til víða hérlendis og nokkur dæmi um að þeim hafi verið beitt við endurlífgun með góðum árangri. Þessi tæki auka verulega möguleika á að gefa rafstuð snemma við hjartastopp ef vitni eru til staðar. Árangur af meðferð sleglataktruflana er þeim mun betri því fyrr sem rafstuð er framkvæmt. Þeir sem verða vitni að hjartastoppi á fjölmennum stöðum, t.d. á líkamsræktarstöðvum, í sundlaugum eða í öðrum íþróttamannvirkjum ættu að spyrjast fyrir um hvort sjálfvirkt rafstuðstæki sé handhægt meðan beðið er eftir sjúkrabíl.

Til að lesa alla þessa grein, kíktu þá HÉR.

Hér fyrir neðan má sjá myndband þar sem sýnt er hjartahnoð á fullorðinni manneskju. ATH myndbandið er á ensku.

 

Grein fengin af síðu hjartalif.is

Myndband fengið af youtube, en þar má einnig finna myndband sem sýnir hjartahnoð á ungabarni.