Fara í efni

Hvað ætlum við að lifa lengi?

Það er engum vafa undirorpið að dvöl mannsins á jörðinni mun taka enda. Það má að sama skapi halda því fram að það sé að einhverju leiti í höndum mannsins sjálfs hversu löng dvöl hans á jörðinni verður. Markaðshyggja nútímans, gegndarlaus neysla og sóun hefur haft alvarleg áhrif. Nálægt helmingi allra matvæla sem framleidd eru í heiminum er hent og stór hluti jarðarbúa sveltur heilu hungri. Umhverfisvá vofir yfir en þrátt fyrir það eykst mengun stöðugt, hitastig jarðar hækkar og er svo komið að losun gróðurhúsalofttegunda hefur aldrei verið meiri. Sýrustig sjávar hefur verið jafnt í milljónir ára en hækkar nú stöðugt, óvenjuleg veðrabrigði verða stöðugt algengari og dýrategundir deyja út.
Hvað ætlum við að lifa lengi?

Loksins er fallegt sumarveður, himininn er heiður og blár. Blái liturinn er svo hreinn og tær að það er engu líkara en hann sé fullkominn, svo hreinn og fagur. Fuglar himinsins hafa flutt endalausar aríur í morgun, sungið í gleði yfir ungviði sínu og líklega einnig yfir því að lítillega hefur létt yfir öllu. Þegar horft er á náttúruna dags daglega virðist allt með felldu. Því miður er ekki allt sem sýnist.

Það er engum vafa undirorpið að dvöl mannsins á jörðinni mun taka enda. Það má að sama skapi halda því fram að það sé að einhverju leiti í höndum mannsins sjálfs hversu löng dvöl hans á jörðinni verður.

Markaðshyggja nútímans, gegndarlaus neysla og sóun hefur haft alvarleg áhrif. Nálægt helmingi allra matvæla sem framleidd eru í heiminum er hent og stór hluti jarðarbúa sveltur heilu hungri. Umhverfisvá vofir yfir en þrátt fyrir það eykst mengun stöðugt, hitastig jarðar hækkar og er svo komið að losun gróðurhúsalofttegunda hefur aldrei verið meiri. Sýrustig sjávar hefur verið jafnt í milljónir ára en hækkar nú stöðugt, óvenjuleg veðrabrigði verða stöðugt algengari og dýrategundir deyja út. Vistfræðileg rök iðnfyrirtækja fyrir því að nota gas sem orku eru oft á tíðum þau að gasið mengi minna en olía þegar því er brennt. Rökin fyrir því að brenna olíu eru þau að olía mengi minna en kol og svo framvegis. Með sama áframhaldi má gera ráð fyrir að afleiðingarnar verði mjög alvarlegar fyrir allt mannkyn á næstu áratugum.  Maðurinn sem bundinn er markaðs og einstaklingshyggju sem leiðir í bruðl, neyslu og taumlausa græðgi hefur ekki tekið tillit til annarra íbúa jarðarinnar.

Svo kölluð vistguðfræði hefur vaxið mikið á undanförnum árum, óhætt er að fullyrða að umhverfisrannsóknir hafi haft mikil áhrif á þá stöðu. Margir guðfræðingar hafa tileinkað sér vistguðfræði frá ýmsum sjónarhornum. Umhverfisfræði leggur áherslu á áhrif loftslagsbreytinga. Trú spilar stórt hlutverk í lífi fjöldans og því gegnir trúin mikilvægu hlutverki þegar kemur að umhverfismálum. Stærstu trúarsamfélög jarðarinnar hafa á undanförnum árum tekið sig saman og lagt sig fram um að samhæfa umhverfisstefnu sínu að einhverju leyti og er hugmyndin sú að nálgast framtíð í umhverfisvænni nálgun þar sem guðfræðin hefur hlutverk.

Innan vistguðfræðinnar þeir til sem halda því fram að jörðin sé nánast dæmd til eyðingar komi ekki fram breytt viðhorf í þá átt að sköpun Guðs sé heilagt land, heilög jörð sem verðskuldi fremur öðru vernd og kærleik af hálfu mannsins. Ein af  nýjum stefnum vistguðfræðinnar er einmitt sú að landið og þeir sem á því búa sé heilagt. Menn, dýr og plöntur búa undir sama þaki.

Það er eðlilegt að gera siðferðilegar kröfur um ábyrgð. Það hefur ekki verið áhersla á það að umhverfið sem gefur forsendur áframhaldandi lífs sé sett í forgrunn og jafnvæginu viðhaldið. Það er eðlilegt í ljósi siðferðilegra almannahagsmuna að gera þessar kröfur. Í stjórnmálaviðhorfi jafnaðarmennsku skipta ákveðin hugtök miklu máli, þar er oft talað um frelsi, jafnrétti og bræðralag,  það er mjög algengt að þegar þessum slagorðum er haldið fram sé því bætt við að frelsinu fylgi ábyrgð. Í kristninni virðist þetta hreinlega hafa gleymst eða orðið út undan.

Allt bendir til þess að maðurinn og náttúran muni annaðhvort blómstra saman hlið við hlið eða sökkva saman út af þeirri vá er nú stendur fyrir dyrum. Tungumál sköpunarinnar gefur til kynna að þessi endanlegi heimur sé umvafinn nærveru lifandi Guðs, sem skapaði heiminn í upphafi, viðheldur honum og færir inn í framtíðina.

Ekkert þarf að endast alltaf þarf að kaupa nýtt, framleiða meira, brenna meiru. Fyrir þá sem trúa því að jörðin og öll lífsamfélög á henni séu dýrmæt sköpun Guðs er þessi framvinda óásættanleg. Það er liggur nokkuð ljóst fyrir að gagnger viðhorfsbreyting er líklega það eina sem getur lágmarkað tjónið sem umhverfisváin mun hafa í för með sér. Viðhorfsbreyting sem felur í sér kærleika og fráhvarf frá sjálfsmiðlægni og neysluhyggju mannsins. Guð birtir kærleika sinn í sköpuninni og mannkynið er einungis hlekkur í gríðarstóru vistkerfi jarðarinnar. Með því að endurvekja sköpunarstefið væri hægt að finna leið til að renna stoðum undir réttlátt lifandi samfélag og lífvænlega tilveru. Sköpunarsaga fyrstu Mósebókar sýnir svo ekki verður um villst að ábyrgðin liggur hjá mönnunum. Líklega er kominn tími til að maðurinn sinni ráðsmennskuhlutverki sínu af kostgæfni, alúð og kærleika. Maðurinn mætti tileinka sér auðmýkt gagnvart náttúrunni og þeirri ráðsmennsku er honum var falin. Það er ábyrgð kristinna einstaklinga að gæta að þessari eilífð lífs sem sett var í hendur þeirra með því að virða lögmál náttúrunnar, virða jörðina og allt sem á henni er og allt sem hana umlykur.

Þegar litið er til stöðu hins trúaða manns á jörðinni má sjá hvernig trúarbrögðin umbreyttust smám saman í vettvang til að fást við örlög og vandamál mannsins. Sérkenni mannsins, geta hans, hlutverk, syndin og þörf fyrir frelsun yfirtók allt annað. Á meðan kristnin bauð manninum upp á endurlausn með krossdauða Krists flaug fordæming heimsins hjá í þögn. Meira að segja guðfræði sköpunarinnar snérist á endanum bara um manninn. Náttúran varð að nytjagagni sem Guð hafði skapað handa manninum til frjálsra nota. Maðurinn í eymd sinni og mannmiðlægri sjálfshyggju hefur þannig yfirskyggt náttúruna og tilverurétt hennar. Hroki mannsins var að verki í aldingarðinum Eden þegar hann borðaði forboðin ávöxt af lífsins tré sem olli því að maðurinn gleymdi því að hann var bara ein tegund á meðal margra annarra sem Guð hafði í hendi sér.

Jesús Kristur kenndi eina meginundirstöðu kristinnar siðfræði í einfaldri framsetningu með gullnu reglunni þegar hann sagði, ,,Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra‘‘. Þessa fallegu framsetningu má heimfæra upp á allt líf og alla nágranna mannsins og fullyrða að yrði henni fylgt þyrfti ekki að óttast um afdrif vistkerfa jarðarinnar.

Grein þessi er innblásin eftir lestur bókarinnar Ask the Beasts, Darwin and the God og love eftir Elizbeth A. Johnson. 

Fritz Már Jörgensson Mag.theol
Lesa má fleiri greinar eftir höfund á éger.is