Fara í efni

Rannsakar þætti tengda grindarbotni íþróttakvenna – Þorgerður Sigurðardóttir í viðtali

Þorgerður Sigurðardóttir er sjúkraþjálfari og Doktorsnemi í líf-og læknavísindum við Háskóla Íslands.
Rannsakar þætti tengda grindarbotni íþróttakvenna – Þorgerður Sigurðardóttir í viðtali
Þorgerður Sigurðardóttir er sjúkraþjálfari og Doktorsnemi í líf-og læknavísindum við Háskóla Íslands.

 

Fullt nafn: Þorgerður Sigurðardóttir

Aldur: 53 ára

Lýstu sjálfri þér í stuttu máli: Þrautseig en óþolinmóð. Glaðvær.


Starf: Sérfræðingur í meðgöngu-og fæðingarsjúkraþjálfun hjá Táp sjúkraþjálfun. Doktorsnemi.

Bakgrunnur í íþróttum: Körfubolti, körfubolti, körfubolti. Fædd og uppalin í körfuboltabænum Stykkishólmi.

Fallegasti staður á Íslandi: Stykkishólmur og Breiðafjarðareyjar.

Uppáhalds matsölustaður og uppáhaldsmatur: Alltaf best heima. Er hrifin af Gló, Bombay Bazaar og Holtinu. Indverskur matur er í uppáhaldi. Gott íslenskt hráefni, t.d. sjávarfang eða lamb klikka ekki.

Þegar þú færð gesti hvað eldar þú oftast: Lax, lamb og svo eru kjúklingaréttir oft skotheldir.

Á „kósíkvöldi“ hvað gerir þú: Finnst oft gott að slaka á við góða spennumynd með fjölskyldunni.

Hvað finnst þér best að gera í frítíma: Útivera og fjallgöngur hjálpa mér að slaka á og nærast andlega. Esjan er í uppáhaldi enda frábær og nærtækur fólkvangur.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana annað en rannsóknarniðurstöður: Þessa dagana hef ég verið að lesa bækur eftir enskan rithöfund, Victoriu Hislop. Hún skrifar frábæra ensku og er af grískum uppruna. Hún hefur skrifað bækur um sterkar grískar kvenpersónur sem oftar en ekki tengjast sögulegum atburðum í Grikklandi og nágrannalöndum.

Segðu okkur aðeins frá rannsókninni þinn: Ég er að rannsaka hvort hugsanleg tengsl séu milli mikils líkamlegs álags eins og íþróttaþjálfunar á fæðingarútkomu. Eftir því sem ég veit best hefur það ekki verið kannað í svona stórri rannsókn eins ég er að gera. Hef fengið góðar viðtökur en gæti ennþá bætt inn íþróttakonum sem þurfa aðeins að svara spurningalista um þjálfun svo það er ekki flókið að taka þátt. Svör þeirra verða borin saman við fæðingarútkomu fyrstu fæðingar. 

Einnig mun ég rannsaka áhrif sjúkraþjálfunar á bata hjá konum sem hafa lent í erfiðum fæðingum en það er annar þáttur rannsóknarinnar.

Hvað gagn getum við haft af gagnasöfnuninni og rannsóknarniðurstöðunum: Niðurstöður munu vonandi hjálpa okkur að skilja hvernig álag hefur áhrif á kvenlíkamann og hvernig mjaðmagrindin og grindarbotninn bregst við því. Við getum ekki gefið okkur fyrirfram í hvora àttina niðurstöður munu falla og er það mjög spennandi.
Varðandi seinni þáttinn vonumst við sem erum aðilar að þessari rannsókn til að hægt verði að sníða heilbrigðisþjónustuna skilvirkar að konum eftir barnsburð, þ.e.a.s. ef niðurstöður verða jákvæðar. 

Eftir þessa rannsókn, ef þú ættir næga peninga, hvað myndir þú rannsaka næst: Ég hugsa að ég myndi vilja gera rannsókn sem sneri að íþróttakonum. Hátt hlutfall íþróttakvenna þjáist af áreynsluþvagleka við íþróttaiðkun. Einnig eru margar sem finna fyrir bráðaþvagleka. Það er ekki mikið talað um þessi mál, en þau ættu að vera uppi á borðinu rétt eins og meiðslaumræða og næring.
Einnig væri spennandi að gera þverfaglega rannsókn á meðhöndlun kvenna með verki og spennu á grindarbotnssvæði. Margar konur þjást af vandamálum sem heita vulvodynia og vaginismus (íslensk heiti liggja ekki alveg á lausu) en þar sem umræðan er ekki opin halda margar þeirra að þær séu þær einu og vita ekki að til eru allskyns lausnir sem get hjálpað.

Ef þú lesandi góður vilt taka þátt í rannsókninni vinsamlegast hafðu samband með tölvupósti á rannsokn@mail.com