Fara í efni

Vissir þú þetta um spírur?

Heilbrigði með neyslu spíra er staðreynd, kíktu á þessar upplýsingar.
Troðfullar af hollustu
Troðfullar af hollustu

Heilbrigði með neyslu spíra er staðreynd, kíktu á þessar upplýsingar.

Ensímrík fæða - aukin orka

Gnægð ensíma í spírum, sem og í fersku grænmeti og ávöxtum, er það sem greinir þessi matvæli frá annarri fæðu. Hvert fræ er forðabúr plöntunnar og inniheldur vítamín, steinefni, prótein, fitu og kolvetni. Þegar réttar aðstæður eru fyrir hendi, með tilliti til vatns og hita, byrjar fræið að spíra og leysir úr læðingi gríðarlega mikla orku.

Náttúruleg efnabreyting á sér stað. Ensím verða til og umbreyta næringarefnum fræsins í þá næringu sem plantan þarfnast til vaxtar.

Við spírunina umbreytast kolvetni í einfaldar sykrur, flókin prótein í amínósýrur og fita í fitusýrur, sem eru allt auðmelt efnasambönd fyrir líkamann. C-vítamín verður til í miklu magni við spírun, ásamt nokkrum öðrum vítamínum, m.a. A og E. Að auki taka spírur upp steinefni og snefilefni úr vatni sem þau vaxa í. Steinefnin í spírunum eru auðmelt og frásogast vel út í blóðið.

Í stað þess að nota orku líkamans og eigin ensímforða við að brjóta niður fæðuna brýtur ensím spírunnar næringarefnin niður í það form sem líkaminn getur nýtt sér og skilar út í blóðið í gegnum slímhúð meltingarfæranna. Á þennan hátt sparar spírað fæði orkubirgðir líkamans. Um leið og það gefur líkamanum hágæða næringu og orku eykur það möguleika líkamans á endurnýjun og heldur líkamanum ungum og orkumiklum.

 sp

Jurtaefni – vernd gegn sjúkdómum

Fyrir utan ensím, sem eru mikilvæg fyrir niðurbrot fæðunnar, innihalda spírur fjöldann allan af flóknum jurtaefnum. Sum þessara jurtaefna leysast úr læðingi frá frumum plöntunnar við meltingu og hafa síðan hæfileika til að endurnýja og vernda frumur mannslíkamans.

Staðfest er með fjölda erlendra rannsókna að efnið glúkórafanín er að finna í miklu magni í brokkólíspírum. Við meltingu og niðurbrot efnisins í meltingarveginum umbreytist glúkórafanín í lífvirka efnið súlfórafan, sem rannsóknir hafa sýnt að geti m.a. hindrað æxlismyndun, örvað afeitrun og hreinsun krabbameinsfruma úr líkamanum, hindrað útbreiðslu krabbameinsfruma til annarra líffæra og hægt á vexti krabbameins á lokastigi.
Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að súlfórafan úr brokkólíspírum veiti vernd gegn húðkrabbameini af völdum útfjólublárra geisla.

Alfalfaspírur hafa lengi verið notaðar sem jurtalyf í Kína, Indlandi og Miðausturlöndum, þar sem þær eru taldar styrkja ónæmiskerfið. 

Alfalfaspírur eru auðugar af estrogenlíkum hormónum, sem geta dregið úr einkennum tíðahvarfa og virkað sem forvörn gegn beinþynningu, krabbameini og hjartasjúkdómum. Alfalfaspírur innihalda blaðgrænu og mikilvæg vítamín; A, C, E, K og B-6, en einnig kalsíum, járn, magnesíum, fosfór, kalíum, natríum, sink, prótein og fjölda jurtaefna sem stuðla að lækkun LDL kólesteróls í blóði og styrkja ónæmiskerfið.

Einstaklingar með hormónatengt krabbamein ættu þó ekki að borða alfalfaspírur, nema í samráði við lækni. Jafnframt ættu þeir sem þjást af lúpus ekki að neyta þeirra.

Blaðlaukur

Ljósgrænn, grannur stilkur með svörtum hnúði á endanum.  Milt laukbragð með eilítið beittu eftirbragði.

Mjög góður sem krydd í salat, með kjöti og fiski. Einnig frábær með ítölskum réttum og súpum, bætt við rétt áður en borið er fram, eða ofan á brauð.

Ríkur af A, B, C og E-vítamínum, auk steinefna, sérstaklega kalsíum, fosfór, járni, brennisteini og magnesíum. Hefur græðandi eiginleika, er bakteríudrepandi, lækkar kólesteról og styrkir ónæmiskerfið.

s 

Bleikar kál- og smáraspírur

Bleikur stilkur, græn blöð með fjólurauðum æðum.  Smágerðar, gott kálbragð.

Fara vel með kjöti, fiski, í salat og ofaná brauð. Einnig góðar í græna drykkinn. 

Ríkar af A, C, B1, B2 og B3-vítamínum, en einnig af U; ensími sem framleiðir efni, eins konar húð, sem verndar meltingarveginn og magann. Spírurnar innihalda auk þess mikið af steinefnum á borð við kalsíum, járn, joð, magnesíum og kalíum.

Brokkólíspírur

Ljósgræn blöð, með grönnum stilk. Einstaklega ljúffengar, mildar og örlítið stökkar. Þær passa vel með fiski, í samlokur og græna drykkinn.

Brokkólíspírur eru hrein ofurfæða. Þær innihalda mikilvæg frumuverjandi efni m.a, glúkórafaníns, sem rannsóknir sýna að geta hindrað æxlismyndun og örvað afeitrun krabbameinsfruma úr líkamanum.
 Mikilvægt er að neyta brokkólíspíranna ferskra, þar sem ensímið mýrósínasa er mikilvægt við niðurbrot glúkórafaníns í hið verndandi efni súlfórafan í meltingarveginum. Þá hefur verið sýnt fram á að súlfórafan í brokkólíspírum geti veitt vörn gegn húðkrabbameini af völdum útfjólublárra geisla.

Brokkólíspírur hafa hátt gildi andoxunarefna, A, C  og E-vítamína , sem hjálpa líkamanum  við að eyða sindurefnum, en þau eru talin vera orsök ýmissa hrörnunarsjúkdóma. Auk þess innihalda þær mikið af öðrum næringarefnum, m.a. vítamínunum B og K  auk sinks, kalsíums, magnisíums og járns.

Radísuspírur - detoxspírur

Radísuspírur eru ríkar af andoxunarefnum A og C, auk fólínsýru B9. Jafnframt er að finna í radísuspírum B1, B2, B3 B6 og K. Radísuspírur eru auðugar af fosfór, kalsíum, magnisíum, natríum, járni og sinki, auk blaðgrænu (chlorophyll) sem hjálpa til við að flytja súrefni til frumanna og er mjög öflug við afeitrun líkamans. Þá innihalda radísuspírur mikilvæg ensím ( mýrósínasa ) sem hjálpa til við niðurbrot og upptöku næringarefna.

Radísuspírur China Rose

Vinsælustu radísuspírurnar, fallega grænar með bleikum stilk, afar ljúffengar með hvaða mat sem er.

Radísuspíur Daikon

Fagurgrænar, stór blöð með hvítum stilk.  Örlítið sætt  eftirbragð.

Radísuspírur Sangó

Dökkfjólurauð blöð, frekar þykk, á ljósrauðum sveigðum stilk. Beitt radísubragð, en frískar og fara vel með hvaða mat sem er.

Rauðsmáraspírur eru fíngerðar og mildar og þeim svipar til alfalfaspíra. Þær innihalda fjölmörg næringarefni, þar með talið kalsíum, króm, magnesíum, níasín, fosfór, kalíum, þíamín, og C-vítamín. Rauðsmáraspírur er auðugar af estrogenlíkum hormónum, sem geta dregið úr einkennum frá tíðahvörfum og virkað sem forvörn gegn beinþynningu og hjartasjúkdómum.

Próteinblanda

Próteinblandan er blanda af spíruðum baunum, ertum, linsum og fræjum (breytilegt eftir árstíðum), m.a úr mungbaunum, grænum ertum, kjúklingabaunum, mismunandi tegundum linsa og fenugreek.  Spírublandan er rík af næringarefnum, m.a. próteinum, steinefnum og vítamínum, einkum, A, C og K. 

Mungbaunir eru góð uppspretta af próteini, sérstaklega amínósýrunni methionine sem talin er hafa róandi áhrif á líkamann. Þær eru ríkar af C-vítamíni og steinefnunum, járni og kalíum.

Linsur eru einnig ríkar af próteini og járni og eru ein besta mögulega uppspretta af C-vítamíni.

Fenugreek er blóð- og nýrnahreinsandi. Ríkt af fosfór og járni, auk snefilefna og inniheldur ensímið U sem verndar meltingarveginn og magann.

Ertur eru ríkar af próteini og kolvetnum, trefjum og vítamíninu A ásamt mikilvægum steinefnum, m.a. járni, kalíum og magnesíum.

Spírublönduna  er gott að nota sem meðlæti með fisk eða kjöti, út á salatið eða sem snakk á milli mála.

Allar spírur stuðla að aukinni orku og eru auðmeltar þar sem spírun brýtur næringarefnin niður í það form sem líkaminn getur best nýtt sér.

s