Fara í efni

Þakkaði bílleysi góða heilsu

Sigurður A Magnússon skrifaði grein í bókina Árin eftir sextugt, sem kom út fyrir næstum tveimur áratugum.
Að ganga er afar holl hreyfing
Að ganga er afar holl hreyfing

Sigurður A Magnússon skrifaði grein í bókina Árin eftir sextugt, sem kom út fyrir næstum tveimur áratugum. Greinin var skemmtileg eins og hans er von og vísa og þar staðhæfði hann að árin eftir fimmtugt hefðu verið besta skeið ævi hans. Hann hefði læknast af magasári rúmlega fimmtugur og þau umskipti hefðu átt verulegan þátt í þeirri vellíðan. En fleira hefði komið til.

Meðan ég stundaði blaðamennsku var það fastur liður einsog venjulega að ég fengi heiftarleg hjartsláttarköst einu sinni eða tvisvar á degi hverjum. Kvað svo rammt að því að hjartalæknirinn skipaði mér að hætta að reykja sem ég og gerði um tíma. Síðan fór ég að synda reglulega, sem var umtalsverð heilsubót, en köstin hættu ekki fyrren að kvöldi dagsins sem ég hvarf frá ritstjórnSamvinnunnar. Síðan hef ég ekki orðið þeirra var sem bendir eindregið til þess að streita en ekki óhollir lifnaðarhættir hafi valdið hjartslættinum“.

Sigurður nefndi í greininni að hann hefði ekki hætt að reykja, en verið með óvenjulágan blóðþrýsting sem væri talið koma til góða á efri árum og einnig hefði hann mjög góða sjón. Hann hefði heldur ekki glímt við svefnleysi. Að öllu samanlögðu teldist heilsufarið fyrir ofan meðallag og það þakkaði hann tvennu.

Í fyrsta lagi hef ég ekki átt bíl síðan 1981, en stundað göngur eftir mætti, enda hef ég ævinlega haft mikla unun af gönguferðum. Í annan stað hef ég síðustu fimm árin stundað sund nokkuð reglulega og ekki farið varhluta af heilsulindinni sem fólgin er í þeirri íþrótt. Göngur og sund hafa í stuttu máli verið minn lífselixír ásamt samneyti við gáfað, skemmtilegt og fróðleiksfúst fólk. Kannski mætti bæta við í þessu samhengi að matarvenjurnar hafa jafnan verið ofureinfaldar. Ég er óforbetranleg fiskæta og gæti sem best látið kjötmeti lönd og leið, þó ekki verði fyrir það synjað að gómsætra kjötmáltíða nýt ég útí æsar þegar þær bjóðast. En kjötleysi mundi aldrei halda fyrir mér vöku né gera mér lífið leitt“.

Heimild: lifdununa.is