Fara í efni

The Biggest Loser – í lagi eða öfgafullt

Skoðanir lesenda á „The Biggest Loser“ þáttunum
The Biggest Loser þættirnir voru á Skjá Einum.
The Biggest Loser þættirnir voru á Skjá Einum.

Skoðanir lesenda á „The Biggest Loser“ þáttunum

Það vakti gríðarlega athygli í fjölmiðlum og á öðrum samfélagsmiðlum þegar þættirnir „The Biggest Loser“ hófu göngu sína á Skjá einum. Þeir sem þekktu til sambærilegra þátta erlendis frá biðu spenntir eftir íslensku útgáfunni og því að vita hverjir yrðu fórnarlömb þjálfaranna sem fengnir höfðu verið í verkefnið.

Þættirnir fengu fínt áhorf áskrifenda sjónvarpsstöðvarinnar og var mikið fjallað um það þegar þrír síðustu keppendurnir voru eftir. Fagfólk úr ýmsum geirum hafði þó töluvert við þættina að athuga, líkt og starfsbræður þeirra í Bandaríkjunum. Aðallega þá við framkomu þjálfaranna, þær harkalegu og öfgafullu aðferðir sem beitt var við þjálfunina en einnig þá miklu fæðutakmörkun sem keppendum var ráðlögð. Það sem heilbrigðisstarfsfólkið hafði þó mest við þá að athuga var sú yfirlýsing sjónvarpsstöðvarinnar að þær aðferðir sem notaðar voru í þáttunum væru „vottaðar af“ fagfólki, nánar tiltekið „sálfræðingum, læknum og næringarfræðingum“ ( Sjá hér ). Að minnsta kosti hvað Ísland varðar þá var þetta ekki satt og þar sem þættirnir voru sýndir hér á landi þá þótti fagfólkinu rétt að koma þessum áhyggjum sínum á framfæri með undirskriftabréfi og undir það bréf skrifuðu eftirfarandi fagstéttir; Félag fagfólks um átraskanir, Félag fagfólks um offitu, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Matarheill, Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands, Samtök um líkamsvirðingu og Sálfræðingafélag Íslands. Í kjölfar bréfsins varð töluverð umfjöllun í fjölmiðum en yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér og voru röksemdir fagfólksins stutt með tilvitnunum í tvær rannsóknir sem gerðar höfðu verið í tengslum við keppnina í Bandaríkjunum. Sjá meira hér.

Heilsutorg fjallaði lauslega um þættina auk þess sem tekið var viðtal við sigurvegarann Jóhönnu Elísu Engelhartsdóttur (sem tapaði alls 53 kg meðan á átakinu stóð) nokkrum vikum eftir að þáttunum lauk og hún spurð spjörunum úr. Lesa má vitalið við Jóhönnu hér

Þarna lýsir Jóhanna Elísa sinni upplifun og það er ánægjulegt hversu jákvæð hennar upplifun var og hvað þátttaka í þáttunum hefur haft jákvæð áhrif á hana og jafnvel fólk í kringum hana eins og hún segir í viðtalinu.

Heilsutorg lagði nokkrar spurningar fyrir lesendur sína þar sem þeir voru spurðir álits á keppninni og voru niðurstöðurnar áhugaverðar en af þeim tæplega 480 manns sem svöruðu þá fannst 51% þættirnir vera í lagi, 19% höfðu eitthvað við þættina að athuga þar sem 8% finnst prógramið öfgafullt og 11% finnst þetta ekki lagi. 29% svarenda höfðu ekki séð þættina.

Það sem skiptir þó mestu máli er að þættirnir hafi haft góð áhrif á alla hina þátttakendurna og að árangur þeirra allra verði langvinnur og til framtíðar. Það er nefnilega tiltölulega auðvelt að léttast en það er oft þrautin þyngri að grennast og halda kílóunum af lengur en í 5 ár.

Fríða Rún Þórðardóttir, Næringarfræðingur, næringarráðgjafi, íþróttanæringarfræðingur