Fara í efni

Þunglyndi hugsanlega dulinn áhættuþáttur meðal kvenna

Þunglyndi hjá konum yngri en 55 ára getur allt að tvöfaldað hættu á hjartaáfalli. Sömuleiðis eru allt að tvisvar sinnum meiri líkur á að þær þurfi á hjartaþræðingu að halda eða deyji af völdum hjartaáfalls. Þetta kemur fram í rannsókn sem var gerð við Emory-háskóla í Atlanta.
Þunglyndi hjá konum getur orsakað hjartaáfall
Þunglyndi hjá konum getur orsakað hjartaáfall

Þunglyndi hjá konum yngri en 55 ára getur allt að tvöfaldað hættu á hjartaáfalli. Sömuleiðis eru allt að tvisvar sinnum meiri líkur á að þær þurfi á hjartaþræðingu að halda eða deyji af völdum hjartaáfalls. Þetta kemur fram í rannsókn sem var gerð við Emory-háskóla í Atlanta.

„Konur í þessum aldurshópi eru líklegar til að þjást af þunglyndi, svo þunglyndið er hugsanlega einn af „duldum“ áhættuþáttum og kannski skýring á að konur eru hlutfallslega líklegri til að látast af völdum hjartaáfalls en karlmenn,“ sagði Amit Shah, einn af höfundum rannsóknarinnar og aðstoðarprófessor í faraldsfræðum við Emory-háskóla.

Þeir sem stóðu að rannsókninni mátu þunglyndiseinkenni í 3.237 einstaklingum sem voru á leið í skuggaefnis- og æðarannsóknir (hjartaþræðingu), m.ö.o. röntgenmyndir til þess ætlaðar að greina kransæðasjúkdóma.

Eftir að hafa fylgst með sjúklingunum í tæp þrjú ár komust vísindamenn að eftirfarandi niðurstöðum;

 - ef þunglyndiseinkenni hjá konum yngri en 55 ára hækkuðu um eitt stig, greindist aukning hjartasjúkdóma í þessum hópi um 7% að meðaltali , eftir að aðrir áhættuþættir höfðu verið teknir með í reikninginn;

- konur, 55 ára og yngri, sem höfðu ýmist þjáðst af þunglyndi í meðallagi eða alvarlegu þunglyndi, voru mun líklegri til að þurfa á kransæðavíkkun að halda, fá hjartaáfall eða deyja af völdum hjartasjúkdóma;

- eftirfylgnin leiddi í ljós að líkur á að konur í þessum aldursflokki létust af öðrum ástæðum voru helmingi meiri ef þær áttu við þunglyndi að stríða, hvort sem um var að ræða þunglyndi í meðallagi eða alvarlegt þunglyndi;

- þunglyndi reyndist ekki áhættuþáttur hjá karlmönnum eða konum eldri en 55 ára.

„Það er afar mikilvægt að allir taki þunglyndi alvarlega, ekki síst hjá yngri konum," var haft eftir Shah. „Þunglyndið eitt og sér er næg ástæða til að fara reglulega í eftirlit. Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu þarf að spyrja fleiri spurninga, vera meðvitað um áhættuþáttinn og að ungar konur virðast viðkvæmar gagnvart þunglyndi," sagði Shah.

„Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir nákvæmar niðurstöður um nauðsyn þess að greina þunglyndi í ungum konum, né hversu þunglyndið vegur þungt sem áhættuþáttur, leiðir rannsóknin engu að síður í ljós að eftirlit með þunglyndi ungra kvenna er konunum til góðs," sagði Viola Vaccarino, prófessor og einn af stjórnendum rannsóknarinnar. "Því miður hefur þessi hópur ekki verið rannsakaður að ráði hingað til.“

Árið 2008 gaf American Heart Association út yfirlýsingu um að þunglyndi skyldi formlega greint sem aukinn áhættuþáttur hjartasjúkdóma.

Grein um rannsóknina birtist í Journal of the American Heart Association.

Edda Jóhannsdóttir

Heimild: hjartalif.is