Fara í efni

Karlar og beinþynning

Oft er litið á beinþynningu sem kvennasjúkdóm en það er síður en svo rétt. Karlar geta einnig fengið beinþynningu þó sjúkdómurinn herji frekar á þá á eldri árum heldur en konur.
Karlar og beinþynning

Karlar og beinþynning

Oft er litið á beinþynningu sem kvennasjúkdóm en það er síður en svo rétt. Karlar geta einnig fengið beinþynningu þó sjúkdómurinn herji frekar á þá á eldri árum heldur en konur.

Árið 2004 var hinn alþjóðlegi beinverndardagur helgaður sértæku efni - KARLAR og BEINÞYNNING.  Beinvernd var þá, í samstarfi við alþjóða beinverndarsamtökin IOF, með átak í tilefni dagsins til að auka vitund um beinþynningu meðal karla.

Nýr bæklingur um karla og beinþynningu var gefinn út auk fréttabréfs sem helgað var þessu málefni sérstaklega.

Beinvernd bendir körlum á að það eru margir þættir sem geta haft áhrif á beinin s.s. erfðaþættir, reykingar, óhófleg áfengisneysla, hreyfingarleysi, næring sem ekki inniheldur nægjanlegt kalk og D-vítamín, seinkaður kynþroski og aðrir sjúkdómar.  Auk þess getur notkun ákveðinna lyfja s.s. sykurstera einnig valdið beinþynningu. 

Hvernig get ég látið greina mig:

Fyrsta skrefið er að svara spurningum í áhættuprófi um beinþynningu sem er að finna á vef Beinverndar, www.beinvernd.is þar getur þú kannað hvort þú ert í áhættuhópi! Ef að þú flokkast í áhættuhópi fyrir beinþynningu er næst á dagskrá að hafa samband við heimilislækni og fá tilvísun til að fara í beinþéttnimælingu á Landspítala. Niðurstöðurnar úr mælingunni gefa til kynna hver þéttni beinanna er, hvort hún er nægjanleg, hvenær þú ættir að koma í næstu mælingu og hver næstu skref eru ef greining leiðir beinþynningu í ljós.

Beinþynning – hinn þögli faraldur:

Hér á landi er talið að rekja megi um 1000-1200 brot til beinþynningar á ári hverju. Algengustu brotin eru úlnliðsbrot, framhandleggsbrot, samfallsbrot í hrygg og mjaðmarbrot, sem eru alvarlegust. (Aðalsteinn Guðmundsson og Anna Björg Aradóttir, 2004).

Sjúkdómurinn er stundum nefndur “hinn þögli faraldur” vegna þess að einkenni hans koma oft ekki í ljós fyrr en við beinbrot. Brotatíðni er mismunandi eftir löndum hjá körlum og konum, en álagið og þjáningarnar sem brotin valda eru að aukast vegna þess að fólk lifir nú að jafnaði lengur en áður og þar af leiðandi eru fleiri aldraðir í heiminum sem hafa tilhneigingu til að brotna (Ego Seeman, 2004). Beinbrot vegna beinþynningar eru kostnaðarsöm, bæði hvað varðar þjáningu þeirra sem fyrir þeim verða og vegna meðferðar og umönnunar.

Greiningar:

Tiltölulega auðvelt er að greina beinþynningu með svokölluðum beinþéttnimælum, sem er góður mælikvarði á brotahættu, líkt og blóðþrýstingur og blóðfitur segja fyrir um áhættuna á kransæðastíflu eða heilablóðfalli. Fullkomnir beinþéttnimælar, svokallaðir DEXA-mælar, eru á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi, en hægt er að fara í “minni” mælingu sem gefur vísbendingu um beinhaginn, hjá Lyfju, Gigtarfélagi Íslands, Gigtsjúkdómadeild LHS og hjá Beinvernd.  Auk þess hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi yfir að ráða handarmæli sem einnig gefur vísbendingu um ástand beinanna  (Björn Guðbjörnsson, 2002 og 2004). Beinþynningu er hægt að meðhöndla með sértækum lyfjum, auk D-vítamíns og kalks. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að lyfjameðferð getur viðhaldið beinþéttni og jafnvel aukið beinmassann (Björn Guðbjörnsson, 2004).

Mikilvægi forvarnarstarfs:

Lífshættir og erfðaþættir ráða að miklu leyti þéttni og styrk beina.  Þess vegna er mikilvægt að forvarnarstarf sé öflugt og nauðsynlegt er að tryggja forvörnina alla ævi.  Þar skiptir hvað mestu máli reglubundin líkamleg hreyfing og mataræði sem inniheldur D-vítamín og kalk. 

Heimildir:

  1. Aðalsteinn Guðmundsson og Anna Björg Aradóttir (2004). Mjaðmarbrot alvarlegust – grein frá Landlæknisembættinu, www.beinvernd.is
  2. Björn Guðbjörnsson (2002). Beinþéttnimælingar og gildi þeirra. Vörðuð leið til betri heilsu-afmælisrit Bæklunardeildar FSA (16-18).
  3. Björn Guðbjörnsson (2004). Meðferðarúrræði gegn beinþynningu. Fréttabréf Beinverndar, 1.tbl. 2. árg. (4-5).
  4. Seeman, E. 2004. Invest in your bones – Osteoporosis in Men-The silent epidemic strikes men too – skýrsla gefin út af IOF, alþjóða beinverndarsamtökunum í tilefni alþjóðlegs beinverndardags 20. október 2004.