Fara í efni

Kynsjúkdómar sækja í sig veðrið

Júlítölublað Farsóttafrétta, fréttabréfs sóttvarnalæknis, er komið út á vef Embættis landlæknis.
Kynsjúkdómar sækja í sig veðrið

Júlítölublað Farsóttafrétta, fréttabréfs sóttvarnalæknis, er komið út á vef Embættis landlæknis.

Í fréttabréfinu er að þessu sinni vakin athygli á því að kynsjúkdómar eru að færast í aukana hér á landi um þessar mundir. Á þetta einkum við sárasótt og lekanda. Þessi þróun hefur átt sér stað bæði austan hafs og vestan.

Leitað hefur verið skýringa á þessu og er helst nefnt að ónógu fjármagni sé varið til forvarna ásamt breyttu viðhorfi karla sem hafa mök við karlmenn, en þeir eru í mestri hættu á að sýkjast af sárasótt og HIV.

Í upphafi alnæmisfaraldursins í byrjun níunda áratugar síðustu aldar var lögð áhersla á smokkanotkun við kynmök og fækkun rekkjunauta. Hins vegar er talið að slaki hafi komið í þessar einföldu forvarnaraðgerðir eftir að öflug meðferð gegn HIV-sýkingu kom til sögunnar.

Að auki hefur verið bent á þá staðreynd að sumir sem eru ósýktir af völdum HIV noti lyfin gegn veirunni í forvarnarskyni (preexposure prophylaxis-PrEP) og að hinir sem sýktir eru velji sér gjarnan rekkjunauta sem einnig eru sýktir. Hvort tveggja hafi þetta stuðlað að minnkandi notkun smokka og þannig rutt brautina fyrir aðra kynsjúkdóma eins og sárasótt og lekanda.

Sóttvarnalæknir telur mikilvægt að vekja athygli á þessari þróun, einkum meðal þeirra sem teljast til áhættuhópa. Huga verði að því að smokkar séu ávallt aðgengilegir á viðráðanlegu verði og að skimun fyrir kynsjúkdómum verði tryggð í mæðravernd og meðal annarra hópa sem eru í sérstakri áhættu.

Lesa nánar: Farsóttafréttir. 9. árgangur. 3. tölublað. Júlí 2016 (PDF)

Sóttvarnalæknir

 

 

 

 

Könnun

Hvaða hreyfingu stundar þú?