Fara í efni

Börn eiga sér drauma

Nú er verið að sýna þættina Paradísarheimt á RÚV þar sem gefin er innsýn í alvarleika geðraskana og til að gefa von.
Börn eiga sér drauma

Nú er verið að sýna þættina Paradísarheimt á RÚV þar sem gefin er innsýn í alvarleika geðraskana og til að gefa von.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt til að deila minni reynslu þar sem kvíðaröskun sem heitir félagsfælni er þriðji algengasti geðsjúkdómurinn á eftir alkóhólisma og þunglyndi en farið hljótt með. Held að sé hollt fyrir skólasamfélagið og kerfið að nýta sér meiri reynslu fólks sem hefur gengið í gegnum erfileika og náð góðum bata af andlegum veikindum. Horfi ég þá til lífsleikni í grunnskólum og er ég viss um að hægt sé að gera betur þar með forvarnir með sameiginlegu átaki fagmanna og sérfræðinga sem glímt hafa við andleg veikindi og vanlíðan.

Það virðist vera sameiginlegt með þeim sem glíma við andleg veikindi og vanlíðan að það hafi byrjað í æsku og oft kemur einelti mikið við sögu. Mig langar að gefa ykkur aðeins innsýn inn í mitt líf og hvað getur verið hægt að spara með að grípa strax inn í til að gefa börnum og ungmennum tækifæri á að takast á við lífið, mennta sig og eiga betri framtíðarmöguleika með allri þeirri þekkingu sem við höfðum ekki áður.

Grunnskóli 1974

Þegar ég byrjaði í grunnskóla í fyrsta bekk leið mér strax illa og var lítill í mér. Ég átti erfitt með að læra og fór í sérkennslu í lestri. Ég átti erfitt með að einbeita mér og kveið fyrir að standa upp fyrir framan bekkinn og tala.

Það sem hjálpaði mér var að ég var þokkalegur í íþróttum og var þá tekinn í hópinn. Lærdómur sat hins vegar á hakanum af því að mér leið svo illa í skólanum. Mig langaði að læra en hafði bara ekki sjálfstraust eða einbeitingu í það.
Ég þorði ekki að tala um mína vanlíðan og birgði hana frekar inni í mér. Ég var svo hræddur um að ef ég segði frá hvernig mér liði yrði ég skammaður. Það yrði sagt við mig að ég ætti bara að rífa mig upp og hætta þessu væli. Fólk vissi náttúrulega ekki frekar en ég hvað geðraskanir voru á þeim tíma.

Frá 12 ára aldri var kvíðinn orðinn að mikilli fælni. Ég kveið orðið fyrir að mæta á æfingar eða spila leiki. Ég fór aldrei á opið hús í skólanum og reyndi að forðast samskipti. Líðanin var ömurleg sem lýsti sér þannig að mig langaði að deyja á hverjum degi. Ég var reiður yfir hvernig mér leið og svaraði öðrum með reiði sem ég sá svo eftir en það var ein af mínum vörnum. Herbergið var orðinn minn besti vinur en þá þurfti ég ekki að hitta aðra þótt að mig dauðlangaði til þess.

Ég vissi ekki af hverju ég svitnaði, roðnaði, klökknaði og var með með brotthætt taugakerfi, ekkert sjálfstraust eða sjálfsvirðingu. Ég var viss um að allir skömmuðust sín fyrir mig.

Ég leyfði öðrum að gera grín að mér og tók þátt í því með að setja upp grímu svo enginn myndi sjá mína vanlíðan. Ég skammaðist mín fyrir sjálfan mig og fannst ég vera asnalegur. Ég náði samt að klára grunnskóla en þorði ekki í útskriftarferðina.

Lífið eftir grunnskóla

Ég prófaði framhaldsskóla en entist í tvo mánuði þar sem ég gat ekki verið innan um aðra. Hættur að fara með félögum í bíó eða hanga í bænum. Ég var líka hættur að fara í fjölskylduboð og var bara með afsakanir.

Fór að vinna 16 ára og vann á sama vinnustað í 20 ár en fór ekki í kaffi eða matartíma. Ég gat fengið léttari vinnu öll þessi ár á miklu hærri launum en þorði ekki úr syndrominu sem ég var orðinn vanur að vera í.

Um 17 ára aldur fór ég að drekka til að flýja raunveruleikan og deyfa mína vanlíðan, þegar félagarnir voru að drekka þá gat ég komið, og var oftast búinn að drekka í mig kjark til að komast til þeirra. Þessari aðferð mæli ég alls ekki með.
Þótt skrýtið sé var ég alltaf virkur í fótboltanum en þar fékk ég vissa útrás en gat samt aldrei einbeitt mér nógu vel, það fór svo mikil orka í umhverfið í kringum mig. Ég varð að hætta í Þór þegar ég var búinn með annan flokkinn. Ég treysti mér ekki að spila með meistaraflokknum hjá Þór og fór frekar í Magna Grenivík.
Ég fór frekar í Magna þar sem það var minna félag og færri áhorfendur.
Spila með þeim þangað til ég var 27 ára gamall en þurfti þá að hætta út af slitgigt.

Ég þurfti að fara í mjaðmaliðaskipti 1998 þá 31 árs gamall. Ég þarf að fara aftur 2004 og þá orðinn 37 ára gamall.
Ég varð óvinnufær eftir seinni aðgerðina en það er það besta sem hefur gerst í mínu lífi. Svolítið skrýtið að segja þetta orðinn verkjasjúklingur en það varð til þess að ég eignaðist það líf sem ég á i dag eftir mikla vinnu í sjálfum mér.
Ég var nefnilega í verkjaskóla á Kristnesi árið 2005 þar sem ég sá í fyrsta skipti hvað ég hafði glímt við síðan ég var barn. Ég fékk þá bæklinga um kvíða, félagsfælni og þunglyndi og sá þá í fyrsta skipti hvað hafði stjórnað mínu lífi.

Það er von

Það voru raunverulegar ástæður fyrir minni vanlíðan og það var von. En til þess þyrfti ég að taka grímuna af og fá hjálp. Ég hafði tækifæri á að byggja mig upp og öðlast sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Ég þurfti að vinna fyrir því að taka niður grímuna og nýta mér hjálpina með opnum huga.

Ég byrjaði strax að leita mér hjálpar á Kristnesi hjá sálfræðingi þar sem mörg tár runnu niður í fyrsta tímanum. Í framhaldi af því fór ég til míns heimilislæknis sem spurði hvort ég vildi fá hjálp upp á geðdeild eða fara í samtalsmeðferð með sér. Ég sagðist ekki vera að fara upp á geðdeild, það væri ekki fyrir mig svo ég valdi samtalsmeðferð og fór á lyf sem heitir seroxat.

Í byrjun árs 2006 fór ég að drekka ofan í lyfið og fann að ég þyrfti að hætta að drekka svo ég gæti haldið áfram að vinna í sjálfum mér. Ég fór í fulla meðferð hjá SÁÁ í lok janúar og ákvað að 2006 yrði árið mitt. Ég stóð við það og endaði á Heilsustofnun Hvergerðis um haustið þar sem líkamlegi hlutinn var tekinn og hef farið þangað reglulega síðan til að halda mér gangandi.

Ég hóf framhaldsskólanám ásamt hópefli í Starfsendurhæfingu Norðurlands í byrjun árs 2007 en það var mikil áskorun eftir að hafa hætt eftir tvo mánuði 24 árum áður.

Eigin fordómar

En snemma árs 2008 varð ég mjög veikur og lagðist inn á geðdeild á Akureyri. Það var erfitt skref að stíga og ég hugsaði að nú halda allir að ég sé endanlega orðinn geðveikur en náði því að það skiptir ekki máli hvað aðrir halda heldur hvað er ég að gera til að öðlast betra líf. Þurfti ég fyrst og fremst að losa mig við eigin fordóma.

Eftir hálfan mánuð á geðdeildinni var mér farið að líða betur og ég hafði fengið ný lyf sem virkuðu betur fyrir mig. Minn læknir var að mennta sig í hugrænni atferlismeðferð og fékk að nota mig sem tilraunadýr í því námi. Um sumarið fór ég í félagskvíðahóp á göngudeild geðdeildar og í framhaldi af því í sex vikur á geðsvið Reykjalundar í hugræna atferlismeðferð.

Ég kláraði starfsendurhæfinguna vorið 2009, ári á eftir áætlun og var mér bent á möguleikann að fara suður í Ráðgjafaskóla Íslands því það var talið henta mér. Það gerði ég og þá kynntist ég Hugarafli. Ég man eftir því að þegar ég var á leiðinni þangað í fyrsta sinn hugsaði ég: „Ég er nú ekki svona geðveikur“. Þrátt fyrir allt þetta ferli og alla þessa vinnu með minn sjúkdóm voru fordómarnir ennþá þetta miklir hjá mér. En svo kom í ljós að í Hugarafli var bara fólk eins og ég sem var að vinna í sínum málum og þar var mér mjög vel tekið. Var í Reykjavík í þrjú ár en flyt til Akureyrar í desember 2012 og kom þar inn í grasrótarhóp fagmanna og notenda sem voru búnir að hittast einu sinni í viku frá 2011. Það er nú þannig að ef geðheilbrigði er ekki í lagi er ekkert í lagi og það varð eitthvað að koma í stað lokunar dagdeildar SAk áður FSA.

Grófin geðverndarmiðstöð stofnuð 2013

Grófin geðverndarmiðstöð á Akureyri hefur sýnt sitt forvarnagildi og hjálpað mörgum að stíga skrefið að vinna í sjálfum sér á jafningjagrunni. Grófin hefur fengið jákvæð og sterk viðbrögð í samfélaginu sem hefur hjálpað okkur að gera betur í dag en í gær. Fengið hvatningarverðlaun og námsmenn námsstyrki og auk þess verið með fræðsludaga og fengið mikla viðurkenningu og styrki frá aðilum sem eru virkilega ánægðir með okkar starf. Unnið er gott starf á Akureyri í geðheilbrigðisgeiranum fyrir 18 ára og eldri og var nauðsynlegt að félagasamtök kæmu inn í þá flóru. Að fólk sem hefur glímt við geðraskanir komi að mótun geðheilbrigðisstefnu og taki þátt í forvarnastarfi í skólum eru mikil verðmæti fyrir samfélagið. Grófin hefur verið í góðri samvinnu við HA og samstarf við geðdeild að aukast sem er mikil viðurkenning á okkar forvarnastarfi.

Eins og ég sagði í byrjun í þessari grein vil ég benda á að ef við tökum á vandanum strax í æsku getum við gefið börnum og ungmennum sem glíma við andleg veikindi eða vanlíðan tækifæri á að mennta sig og eignast bætt lífsgæði. Tökum á rót vandans í stað þess að slökkva elda! Þetta snýst um líf og lífsgæði en við missum 3 til 4 fyrir eigin hendi í hverjum mánuði fyrir utan þau sem reyna sem eru 500 til 600 á ári. Hvað ætli séu mörg ungmenni sem leita í vímuefni vegna þess að þau fá ekki hjálp strax í æsku? Ef þið viljið vita meira er hægt að fara á heimasíðu Grófarinnar : http://www.grofin.wordpress.com.  

Höfundur greinar:

Eymundur Eymundsson