Fara í efni

Engin heilsa án geðheilsu

Mikið hefur verið rætt og ritað um hvað aðgreinir þá sem tekst að njóta lífsins og takast með jákvæðni á við erfiðleika eins og verkefni sem þarf að leysa frá hinum sem líta á erfiðleika sem ógn sem erfitt er að höndla.
Engin heilsa án geðheilsu

Mikið hefur verið rætt og ritað um hvað aðgreinir þá sem tekst að njóta lífsins og takast með jákvæðni á við erfiðleika eins og verkefni sem þarf að leysa frá hinum sem líta á erfiðleika sem ógn sem erfitt er að höndla.

Fyrir rúmum áratug fengu frumkvöðlarnir Elín Ebba Ásmundsdóttir iðjuþjálfari og Héðinn Unnsteinsson, sem þá starfaði að geðræktarverkefnum hjá Geðhjálp, þá hugmynd að setja saman og gefa út heilræði til almennings um gildi þess að hugsa vel um geðheilsu sína ekki síður en líkamlega heilsu og hafa jákvæðni í fyrirrúmi.

Heilræðin fengu heitið Geðorðin tíu og síðan þau komu út hafa þau verið leiðarljós margra, til dæmis hafa sumir þau á ísskápnum til að minna sig á jákvæðan hugsanagang og aðrir tala um að eiga uppáhaldsgeðorð.

Geðorð eitt: Hugsaðu jákvætt, það er léttara.

  • Jákvæðni er valkostur.
  • Það er hægt að hafa áhrif á líðan með hugarfari.
  • Viðhorf til umhverfisins og verkefna daglegs lífs skipta máli.

Hver dagur er óskrifað blað. Við leggjum upp í daginn og verkefni hans með ákveðnu hugarfari og reynum flest eftir fremst megni að sinna þeim verkefnum sem til falla og njótum þess að leysa þau á farsælan hátt.

Fyrsta geðorðið minnir á að lífið er dýrmætt og ekki sjálfgefið. Á góðum degi kunnum við að meta styrkleika okkar, erum áhugasöm, tölum fallega um uppbyggileg og gefandi samskipti við okkar nánustu, erum meðvituð um mikilvægi þess að eiga áhugamál, horfum bjartsýn á lífið, höfum útgeislun og teljum að jákvætt hugarfar létti okkur lundina.

Stundum koma þó dagar þegar erfitt er að trúa á jákvæðnina. Lífið tekur skyndilega stakkaskiptum, áföll og sorg fylla daginn og allt virðist svart. Neikvæðar hugsanir ná yfirhöndinni og ýmis sársaukafull sállíkamleg einkenni koma fram sem erfitt getur verið að skilgreina eða horfast í augu við. Á þeim augnablikum er mikilvægt að muna að við búum yfir þrautseigju og fyrri reynslu um hvernig best sé að takast á við vanda og finna lausnir. Þá er líka gott að muna að þeir sem standa okkur næst, eins og ættingjar og vinir, vilja oftar en ekki hjálpa okkur að takast á við vandann, létta undir með okkur og sjá lausnir sem við komum ef til vill ekki auga á þá stundina..

Stundum þarf þó að leita til fagaðila. Það þarf hugrekki til að takast á við erfiðleikana og þora að kynnast sjálfum sér og tilfinningum sínum.

Munum að allar tilfinningar eru velkomnar, við njótum þeirra góðu en þurfum einnig að staldra við og vinna úr erfiðu tilfinningunum og þora að skoða þær. Að viðurkenna erfiðar tilfinningar leiðir okkur á rétta leið sem hjálpar okkur út úr vanda og að koma auga á ný tækifæri út frá nýrri reynslu og ná þannig að hugsa jákvætt á ný, vitandi að það eykur sjálfstraust, bjartsýni og léttir lífið. Vellíðan og velgengni er langhlaup, ef ekki eilífðarvinna.

Markmið: Njóttu augnabliksins og mundu að það kemur aldrei aftur, en með því að njóta þess og læra af því ertu að búa til fallegar minningar til framtíðar fyrir þig og þína.

Salbjörg Bjarnadóttir
geðhjúkrunarfræðingur

Af vef landlaeknir.is