Fara í efni

Dísa í World Class gaf sér tíma í smá spjall við Heilsutorg.is

Hún Hafdís Jónsdóttir eigandi World Class stendur í stórræðum þessa dagana.
Dísa í World Class
Dísa í World Class

Hún Hafdís Jónsdóttir eigandi World Class stendur í stórræðum þessa dagana.

Ný stöð er að opna í Egilshöll í Grafarvogi 4.janúar og eru þau að bjóða mánuðinn þar á 4.990 kr í tilefni þess að Laugar eru 10 ára.

Dísa, eins og hún er alltaf kölluð, kennir Hot jóga ásamt því að vera með tíma í þol og styrktaræfingum.

Hvernig byrjar þú hefðbundin dag og hvað er í morgunmat ? 

Allir dagar byrja á að drekka vatn. Fylli könnu af vatni og læt standa við stofuhita yfir nóttina. Drekk tvö vatnsglös ýmist með sítrónu eða BerjaGaldri sem er eplaedik með aðalbláberjum sem eru auðug af hollustuefnum eins og C og E vítamínum. Svo er það lýsið sem er ómissandi og ég tel vera öllum nauðsynlegt til þess að smyrja líkamann og vera tilbúin út í daginn. Eftir það er það ýmist hafragrautur eða egg.

Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum? 

Egg, Epli og fullt af salati.

Hver eru vinsælulstu námskeiðin sem World Class er með ? 

Súperform, Hámarksbrennsla, Fit, Stott og Peak pilates, Fitness box og Hörkuform eru líklega vinsælustu námskeiðin í dag.

Hvernig leggst skammdegið í þig ? 

Finnst allar árstíðir hafa sinn sjarma. Kósý og notalegt að kveikja á fullt af kertum í skammdeginu, horfa á mynd eftir góðan kvöldmat og æfingu.

Ef einhver er að byrja að hreyfa sig aftur eftir t.d veikindi, hverju myndir þú mæla með, þ.e hvernig væri best að byrja ? 

Byrja á að mæta og hjóla, lyfta létt, teygja vel og slaka á í gufu eða heitum potti. Upplifa vellíðunina og auka álagið smátt og smátt. Nýta sér þá þjónustuna sem við veitum og fá tíma hjá þjálfara og fá æfingaáætlun sem hentar.

Hversu oft í viku æfir þú og hvernig æfingar ertu að gera? 

Ég æfi 3 - 5 sinnum í viku. Þol og brennsluæfingar ýmist á þoltækjum eða í hóptímum, styrktaræfingar ýmist í tækjunum í æfingasalnum eða hóptímum og teygjur og slökun í Hot yogatímum. Æfi sem fjölbreyttast og hlakka til að fara á æfingu.

Áttu uppáhalds tíma dags ? 

Finnst bara tíminn líða allt of hratt, vildi geta hægt á honum.

Færir þú hjólandi um borgina ef færð leyfði ? 

Held ekki, á hjól en nota það eiginlega ekkert.

Kaffi eða Te ? 

TE.

Ef þú værir beðin um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það? 

Rækta og hugsa vel um heilsuna eins og við getum. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum. Hafa það ávallt í huga að heilbrigður maður á margar óskir en veikur maður á bara þá einu s.s. að ná góðri heilsu aftur.