Fara í efni

Brúnkukrem

Flest brúnkukrem innihalda efnið dihydroxyacetone (DHA), en einnig eru til efni sem innihalda svokölluð „bronzers“ sem eru vatnsleysanleg litarefni. Þau síðarnefndu hafa mjög tímabundna virkni og það er hægt að þvo þau í burtu með vatni og sápu.
Brúnkukrem eru talsvert hollari en ljósabekkirnir
Brúnkukrem eru talsvert hollari en ljósabekkirnir

Flest brúnkukrem innihalda efnið dihydroxyacetone (DHA), en einnig eru til efni sem innihalda svokölluð „bronzers“ sem eru vatnsleysanleg litarefni. Þau síðarnefndu hafa mjög tímabundna virkni og það er hægt að þvo þau í burtu með vatni og sápu.

Þau brúnkukrem sem innihalda DHA verka þannig að DHA gengur í efnasamband við ákveðnar amínósýrur sem er að finna í ríkum mæli í efstu lögum húðarinnar. Við efnahvarfið myndast brún litarefni sem kölluð hafa verið „melanoidin“. Breytingar á lit húðarinnar koma fyrst fram um 1 klukkustund eftir að efnið er borið á og ná hámarki eftir 8-24 klukkustundir. Liturinn dofnar síðan og hverfur á 5-7 dögum.

Flest brúnkuefni innihalda 3-5% DHA, oft með ýmsum öðrum efnum. Til dæmis innihalda sum kremin önnur litarefni („bronzers“) og jafnvel sólvarnarefni. Benda má á að brúni liturinn sem myndast þegar DHA gengur í efnasamband við amínósýrur í húðinni myndar ekki vörn gegn geislum sólarinnar á sama hátt og náttúrulegur brúnn litur.

Einnig er áberandi að brúni liturinn sem myndast af brúnkukremum er venjulega sterkari þar sem húðin er þykk til dæmis á lófum, iljum, hnjám og olnbogum. Þess vegna er oftast mælt með því að þessi svæði, auk hársins, séu varin þegar brúnkukrem er notað. Liturinn verður einnig oft mjög ójafn hjá einstaklingum sem hafa einhverja húðsjúkdóma, eins og til dæmis exem.

Ýmsar aðferðir eru notaðar til þess að koma efninu á húðina. Í flestum apótekum er hægt að kaupa brúnkukrem sem einstaklingar bera á sig sjálfir. Þau geta verið vandmeðfarin og ef illa tekst til getur húðliturinn orðið býsna ójafn. Margir komast þó mjög vel upp á lagið með að nota slík krem og ná jöfnum og góðum lit. Margar snyrtistofur bjóða upp á þjónustu þar sem efnin eru borin á húðina af snyrtifræðingi eða þeim er úðað á húðina í svokölluðum brúnkuklefa eftir að ákveðin svæði hafa verið hulin. Slík úðun tekur venjulega minna en eina mínútu.

Vegna þess hve notkun þessara efna er mikil í Bandaríkjunum hefur lyfjaeftirlitið þar gefið út almennar ráðleggingar til þess að draga úr líkum á því að DHA komist inn í líkamann. Ráðlagt er að augun séu varin og lokuð og að einstaklingurinn haldi niðri í sér andanum á meðan úðunin fer fram. Einnig ættu ófrískar konur og einstaklingar með asma eða ofnæmi að sneiða hjá slíkri úðun.

Lítið hefur verið gert af rannsóknum til að meta öryggi DHA, en nú þegar notkun efnisins hefur aukist mjög mikið er nauðsynlegt að framkvæmdar verði langtímarannsóknir á öryggi þess. Enn sem komið er virðist þó ekkert benda til þess að efnið sé skaðlegt og er það því mikilvægur valkostur fyrir þá sem vilja hafa brúnan húðlit.

Hinn valkosturinn, ljósaböð eða sólböð, hefur í för með sér aukna hættu á húðkrabbameinum. Auk þess geta útfjólubláir geislar valdið sólbruna og öldrun húðarinnar. Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt að hætta á flöguþekjukrabbameinum tengist heildargeislamagni, en sortuæxli og grunnfrumkrabbamein hafa verið tengd við óreglulega sólun. Sortuæxli hafa einnig verið tengd sólbrunum og sólböðum í æsku.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru margir tilbúnir að greiða hátt verð fyrir brúnan húðlit og fyrir þessa einstaklinga er líklegt að notkun brúnkrema í stað ljósa- og sólbaða dragi úr hættu á húðkrabbameinum.

Heimild: doktor.is