Fara í efni

Ofurhlaup, hvað felst í þeirri áskorun - 1.

Fyrsti hluti
UTMB (Mont Blanc-hlaupið)
UTMB (Mont Blanc-hlaupið)

Fyrsti hluti

Ofurhlaup eru dæmi um áskorun manna á milli en einnig áskorun hlauparans við eigin líkama og hug.

Ofurhlaup (ultrarunning) eru af mjög mismunandi toga. Ofurhlaup fara fram á götum, stígum eða í óbyggðum og þau eru skipulögð á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er hlaupin ákveðin vegalengd og sá sigrar sem hleypur vegalengdina á skemmstum tíma. Í öðru lagi er hlaupið í ákveðinn tíma, 6 klst., 12 klst., 24 klst., 48 klst. eða 72 klst. svo dæmi séu tekin. Þá sigrar sá hlaupari sem hleypur lengsta vegalengd á tilsettum, fyrirfram ákveðnum tíma. Ofurhlaup geta staðið frá nokkrum klukkustundum og upp í vikur en engin ein vegalengd eða eitt form hlaupa er ríkjandi. Í USA er 100 mílna hlaup (160 km) algengasta utanvegahlaupið. Af tímahlaupum er 24 klst. hlaup einna algengast. Hægt er að nefna ýmis dæmi um mikil og virt hlaup.  Thames Ring-hlaupið í Bretlandi, sem haldið er annað hvert ár, er 400 km langt og það lengsta í Evrópu sem hlaupið er í einum áfanga. Þar hafa hlaupararnir að hámarki 100 klst. til að ljúka hlaupinu. Annað virt breskt ofurhlaup er Grand Union Canal Race (GUCR) og er það lengsta hlaupið á Englandi sem haldið er árlega. Hlaupið er frá Birmingham, sem leið liggur til Lundúna, alls 145 mílna leið, sem hlaupararnir hafa 44 klst. til að ljúka en einnig eru sett tímamörk á miðbik vegalengdarinnar enn hlaupararnir hafa 19 klst. til að ljúka fyrstu 70,5 mílunum. Enn eitt  dæmi er hið 245 km langa Spartathlonhlaup í Grikklandi, sem hlaupið er milli Aþenu og Spörtu. Þar hafa hlaupararnir 36 klst. til að ljúka hlaupinu. Það hefur þá sérstöðu að tímamörkin eru mjög ströng, bæði í einstökum áföngum framan af og í heildina, auk þess sem leiðin er mjög erfið. Þrátt fyrir að hlaupararnir séu ekki teknir inn í hlaupið nema að hafa sýnt fram á ákveðna getu í ofurmaraþonum þá ná að jafnaði aðeins 40% hlauparanna að ljúka því ár hvert. Western States 100 mílna hlaupið í Kaliforníu er eitt virtasta 100 mílna hlaupið í heiminum. Það hefur þá sérstöðu að vera fyrsta 100 mílna hlaupið sem var formlega keppt í. 

UTMB (Mont Blanc-hlaupið) nýtur sívaxandi vinsælda en þá er hlaupið umhverfis Mt. Blanc. Þar er boðið upp á nokkrar vegalengdir en sú lengsta er 100 mílur. Þar fá keppendur 46 klst. til að ljúka hlaupinu enda yfir fjöll og firnindi að fara.

Formlegt heimsmeistaramót er haldið árlega í 100 km hlaupi og 24 klst. hlaupi á vegum IAU (International Association of Ultrarunners). Í þessum hlaupum eru sett heimsmet eins og í flestum öðrum íþróttagreinum en heimsmetið í sólarhringshlaupi er 303 km. Í sólarhringshlaupi er markmiðið að að hlaupa meira en 200 km á einum sólarhring. Meðalhraðinn í slíku hlaupi eru tæpir 10 km á klst. en þá er meðtalinn sá tími sem fer í að nærast, skipta um fatnað og skó, auk klósettferða. Það eru einmitt þessir þættir, sem við sinnum umhugsunarlítið í hinu daglegu lífi, sem hlauparinn þarf að flétta inn í keppnina sjálfa, eins vel og aðstæður bjóða upp á. Hér hafa ofurhlaupin mikla sérstöðu samanborið við aðrar íþróttagreinar.


Í sex sólarhringa hlaupi eru gjarnan hlaupnir á bilinu 600-800 km. Svefnþörf hlaupara er mjög mismunandi, sem getur skipt miklu máli í hlaupi sem þessu. Að lokum má nefna hlaup sem eru skipulögð þannig að þau standa yfir í allt að því þrjár vikur. Þá er hlaupið að jafnaði á bilinu 70-80 km á dag en með skipulagðri hvíld og nætursvefni. Sem dæmi um slík hlaup má nefna þau sem hlaupin eru þvert yfir Frakkland og Þýskaland. Annað dæmi er Trans Europe-hlaupið sem stendur yfir í um þrjá mánuði án hvíldardags. Á þeim tíma leggja hlaupararnir að baki um 5.000 km. Hlaupið hefst og því líkur á mismunandi stöðum í Evrópu milli ára. Sem dæmi má nefna að hlaupið hefur verið frá Bari á Ítalíu og til North Cape í Noregi. Það hlaup stóð yfir í 64 daga og mældist vegalengdin 4,485 km. Sigurvegarinn var 378 klst. að hlaupa þessa leið. Síðan má nefna að það nýtur vaxandi vinsælda að hlaupa þvert yfir Bandaríkin. Það eru hins vegar ekki formleg hlaup og hlauparinn yfirleitt einn á ferðinni. Það tekur oft nálægt 100 dögum að ljúka þeirri vegalengd.

Líkamlegar breytingar og varnarkerfi

Ofurhlauparar mega helst ekki léttast mikið meðan á hlaupinu stendur því þá eru þeir farnir að ganga um of á líkamann. Í mörgum hlaupum eru hlaupararnir vigtaðir af og til. Ef þeir hafa lést umfram ákveðin mörk (4-5%) eru þeir fengnir til að borða og drekka. Ef þeir hafa lést enn meira, eða umfram 7%, eru þeir stoppaðir af og fá ekki að halda áfram. Reynslan hefur sýnt að þá er farið að ganga það mikið á líkamann að hann ræður mjög líklega ekki við álagið sem hlaupinu fylgir.

Ofurhlauparar eru áhugavert og vinsælt rannsóknarefni þeirra vísindamanna sem mestan áhuga hafa á varnarkerfum mannslíkamans, þar með talinni andoxunarhæfni hans. Þá þykir einnig áhugaert hvernig ónæmiskerfi líkamans bregst við því mikla álagi sem ofurhlaupin eru, en aukin hætta er talin á smávægilegum sýkingum, til að mynda flensueinkennum og kvefi, í kjölfar ofurhlaupa, og það sama á við um maraþonhlaup.

Notkun á bólgueyðandi lyfjum og verkjalyfjum meðan á hlaupi stendur er ekki æskileg og mjög er varað við notkun verkjastillandi lyfja (pain killers) meðan á ofurhlaupum stendur vegna álags á nýrun.

Hvernig kemst líkaminn af?

Þeir sem hafa tekið þátt í ofurhlaupum hafa margar mismunandi og hreinlega ótrúlegar sögur að segja. Sögur af líðan og árangri sem ekki eiga sér lífeðlisfræðilegar skýringar og hvernig líkaminn virðist hafa dregið sér orku af engu.

Margt er þó hægt að tengja við hormónakerfi líkamans (endocrine system, endocrine reaction), til að mynda hvernig magn kortisóls (cortisol) hækkar sem verður til þess að líkaminn er fær um að sækja sér orku í fituforða sinn og prótein (vöðva og vefi) í stað þess að þurfa á orku að halda úr fæðu eða drykkjum. Hlauparinn er því í raun að éta sjálfan sig upp, fái hann ekki utanaðkomandi orkugjafa.

Reyndar er þessu öðruvísi farið með vökvann, því almennt er erfiðara að komast af án hans í lengri tíma. Þó getur sá vökvi sem binst með kolvetnum, þegar þau geymast í vöðvavef sem glýkógen (3 g vökvi per 1 g kolvetni), nýst í byrjun sem „metabolic water“ eins og í öðrum úthaldsgreinum.

Hormónaviðbrögð líkamans geta hæglega bælt niður langanir og þarfir hans á þann hátt að ofurhlauparinn finnur hvorki fyrir matarlyst né þorsta á tilteknum tímapunktum þrátt fyrir að líkaminn sé undir miklu álagi. Þetta er hluti af varnarkerfi líkamans, ætlað til að komast af við ofurmannlegar aðstæður (extreme conditions). Þetta kerfi virkar þó ekki endalaust og því er þörf á skipulagðri næringu og vökva á leiðinni.



Ofurhlauparar í hnotskurn

Segja má að ef litið er á ofurhlaup í hnotskurn þá mætist þar áskorun um líkamlega hreysti og úthald, gríðarlegan andlegan styrk og einbeitingu. Einnig skiptir máli, geta hlauparans til að hlusta á líkama sinn, skipuleggja sig vel og þola að sofa lítið og kannski ekkert í 2-3 nætur. Það er eins með ofurhlaupara og aðra íþróttamenn að það er misjafnt hvað þeir þola af mat og drykk. Hver og einn þarf að læra af reynslunni og prófa sig áfram undir mismunandi utanaðkomandi aðstæðum.

Ofurhlaup eru dæmi um hvað hægt er að ná langt með því að þjálfa líkama og hug. Það sama á reyndar við um aðrar íþróttagreinar þó svo að aðstæður og álag sé af öðrum toga.

Andlegur styrkur er ekki síður mikilvægur í ofurhlaupum en líkamlegur. Allir ofurhlauparar hafa yfirleitt byrjað á því að hlaupa stutt götuhlaup eða skemmtiskokk. Síðan hefur boltinn byrjað að rúlla.

Sumt sem kemur upp meðan á hlaupi stendur er fyrirsjáanlegt og hægt að bregðast við því á ýmsan hátt með fyrri reynslu að leiðarljósi. Hins vegar er sumt alls ekki fyrirsjáanlegt og til að takast á við það þarf að nota skynsemina og þekkingu á eigin líkama. Þar má nefna, hita, kulda, rigningu, sólarljós, myrkur og andleg og líkamleg viðbrögð við miklu álagi.

Grein: Fríða Rún Þórðardóttir ,Næringarráðgjafi B.S.c : Næringarfræðingur M.S.c : Íþróttanæringarfræðingur