Fara í efni

Er enginn sáttur í eigin skinni - Guðni og hugleiðing á fimmtudegi

Er enginn sáttur í eigin skinni - Guðni og hugleiðing á fimmtudegi

Hlakkarðu til að verða öðruvísi?

„Hlakkarðu til að verða öðruvísi?“ spyr ég þá sem koma á námskeið eða í viðtal til mín.
Allir svara játandi. Allir, alltaf. Engin undantekning.

Af þessu hef ég auðveldlega dregið þá ályktun að því sem næst enginn sé sáttur í eigin skinni. Ef þú lest þessar línur og hristir höfuðið af því að þú ert ósammála vil ég óska þér innilega til hamingju – ef þú upplifir sátt í eigin skinni ertu uppljómuð mann- eskja. Þá ertu fullkomin manneskja – komin til fulls. Þá ertu fullorðin manneskja – orðin full af ljósi ástarinnar. Og því fagna ég af öllu hjarta.

Fæstir vilja vera eins og þeir eru – innst inni vill Siggi vera eins og Nonni, en Siggi veit ekki að innst inni vill Nonni vera eins og Siggi. Nonni kemur heim til Sigga og sér allt með augum skortsins, hann sér það sem hann á ekki; það sem hann er ekki. Á meðan er hann blindur og sér hvorki það sem hann á né það sem hann er. Í huganum, kerfisbundið og taktvisst, hafnar Nonni þeirri samsetningu sem hann er, rífur og tætir í sig eigin manngerð og dreymir um að verða öðruvísi.