Fara í efni

Hug-myndir - hugleiðing Guðna á miðvikudegi

Hug-myndir - hugleiðing Guðna á miðvikudegi

Hjartað er keisarinn – hugurinn er verkfærið

Við erum ekki hugsanir okkar, skoðanir eða viðhorf.

Allar hugsanir eru myndir – hugmyndir. Þegar þú horfir á kvikmynd þá ertu ekki myndirnar á tjaldinu – þótt þú getir lifað þig inn í þær. En hvaðan koma þessar hug- myndir? Hvar náðir þú í þínar? Að hve miklu leyti ert þú að lifa lífinu eftir þessum hugmyndum? Og að hve miklu leyti eru þær frá öðrum komnar?

Munurinn á athygli og hugsunum er sá að hugsanir fela alltaf í sér afstöðu eða viðhorf sem byggja annað hvort á fortíð og reynslu eða framtíð og von eða væntingum. Hugsunin hefur áhengjur og er háð og skilyrt; hún er ljós með aðrar forsendur en þær að bara skína. Hugsunin er líka ósjálfráð því við stýrum henni ekki nema að mjög litlu leyti, eða kannastu ekki við að hafa hugsað hugsanir sem þú vilt alls ekki kannast við að hafa hugsað? Við erum að hala niður hugsunum og hugmyndum allan liðlangan daginn – þær eru ekki á okkar valdi.

Hugurinn skynjar og dæmir; vegur og metur.

Hjartað er miklu sterkara og forsendur þess einfaldari – það bara er og það bara skynjar. Það vill aðeins skína, elska, umfaðma – hjartað vill aðeins veita athygli svo þú vaxir og dafnir.