Fara í efni

Sumarsalat með rabarbara frá mæðgunum

Rabarbarar vaxa víða í íslenskum görðum og spretta hratt um þessar mundir. Í hvert sinn sem við mæðgur sjáum rabarbara dreymir okkur um rabarbarapæjuna hennar ömmu Hildar...hvílík dásemd, sælar minningar!
Sumarsalat með rabarbara frá mæðgunum

Rabarbarar vaxa víða í íslenskum görðum og spretta hratt um þessar mundir. Í hvert sinn sem við mæðgur sjáum rabarbara dreymir okkur um rabarbarapæjuna hennar ömmu Hildar...hvílík dásemd, sælar minningar! 

Við erum að vinna í því að koma upp rabarbaraplöntum í görðunum okkar og eigum bara litla og fíngerða leggi enn sem komið er. En þeir eru líka alltaf bestir. 

 

Mikil hefð er fyrir því að nýta rabarbarann í sultur og deserta, færri hafa vanist því að nota hann í matargerð.
En rabarbari er einmitt alveg ótrúlega góður með mat, til dæmis steiktur eða bakaður. Hann fær svo skemmtilega áferð og gefur dásamlegt súrsætt bragð.

Um helgina útbjuggum við algjört sælkera salat með ýmsu úr garðinum: radísum, grænkáli og litlum ofnbökuðum rabarbaraleggjum. Þvílíkt sælgæti! Rabarbarinn setti heldur betur punktinn yfir i-ið.

 

Við byrjuðum á því að baka grasker í 15 mínútur, skelltum svo rabarbaranum saman við og bökuðum áfram í 5 mínútur. Á meðan við biðum löguðum við dressingu, ristuðum tamari möndlur og skárum restina af hráefninu niður í salatið. Og svo settumst við niður og nutum máltíðarinnar í róleg heitum, í sól og blíðu.

 

Uppskriftin

Salatið

1/4 grasker, skorið í þunna bita
4 grannir rabarbarstilkar, skornir í bita
- Veltið upp úr örlítilli kókosolíu, kryddið með salti og chili. Bakið graskersbitana við 200°C í 15 mín, bætið þá rabarbarabitum við og bakið áfram í 5 mín.
 
7-8 grænkálsblöð
1/2 fennel, í örþunnum sneiðum
3 vorlaukar, skornir í þunnar ská sneiðar
6 radísur, skornar mjög þunnt
1 - 2 dl soðnar svartar baunir (eða kjúklingabaunir úr krukku)
1 dl tamari möndlur (sjá hér neðst)
- Veltið öllu upp úr dressingunni
 
 

Dressingin

1 avókadó
2 msk sítrónusafi
2 msk jómfrúar ólífuolía, lífræn
2 msk vatn
1 msk mórber (gott að leggja i bleyti í vatnið)
1/2 búnt basil
1/2 tsk sambal olek eða annað chili
1 hvítlauksrif
1 msk gróft lífrænt sinnep
smá sjávarsalt
- Blandið öllu saman í blandara.
 
 

Tamari möndlur

4 dl möndlur
¼ dl tamarisósa
1 msk laukduft
¼ tsk sjávarsalt
- Hrærið saman tamarisósu, laukdufti og sjávarsalti. Veltið möndlunum upp úr þessu og setjið á ofnplötu og bakið við 200°C í 4-6 mín. 

Njótið!
 
Uppskrift að síðu maedgurnar.is