Fara í efni

Töfrandi súkkulaði Fudge frá mæðgunum

Það verður bara að viðurkennast, súkkulaði býr yfir einhverskonar töfrum, hvaðan svo sem þeir koma...
Töfrandi súkkulaði Fudge frá mæðgunum

Það verður bara að viðurkennast, súkkulaði býr yfir einhverskonar töfrum, hvaðan svo sem þeir koma...

Kakótréð á rætur sínar að rekja til Mið-Ameríku og hefur verið ræktað þar í yfir 3 árþúsundir. Kakóbaunin, sem menn nutu upphaflega í drykkjarformi, hefur löngum haft yfir sér dulúðugan blæ.

Sagt er að bæði Mayar og Aztekar hafi trúað að kakó væri fæða Guðanna, þeir notuðu kakóbaunina m.a. í helgiathafnir, sem fórnir og sem gjaldmiðil. Innfæddir Ameríkubúar trúðu því að kakóbaunin byggi yfir lækningamætti og vísindamenn hafa í gegnum tíðina haft mikinn áhuga á að skoða eiginleika súkkulaðis. Sumir gagnlegir eiginleikar hafa verið staðfestir, aðrir ekki og margt er enn verið að rannsaka. 

Stundum er talað um að súkkulaði megi nýta sem ástarseyði, það er vegna þess að kakó inniheldur efni sem geta gefið vellíðunartilfinningu, orku og aukið næmi. Svo það er kannski ekkert skrýtið að við sækjum svolítið í súkkulaðið af og til. Og það er líklegast bara hið besta mál, því kakóbaunin virðist búa yfir jákvæðum eiginleikum og inniheldur m.a. plöntuefni með andoxandi virkni, ásamt fleiru spennandi. Gott er að muna að jákvæðir eiginleikar súkkulaðisins koma úr kakóbauninni, en ekki viðbætta sykrinum. Og þess vegna er gott að passa upp á gæðin (vísbending: dökkt, lífrænt, fairtrade) og njóta súkkulaðis í hófi, en að sjálfsögðu án samviskubits. 

Eitt af því sem okkur mæðgunum finnst svala ákallandi súkkulaðiþörf vel, er heimagert súkkulaði fudge.

Í þetta súkkulaði fudge notum við bæði möndlusmjör og tahini, sem gefa góða áferð, holla fitu, ýmis næringarefni og smávegis jafnvægi á móti sírópinu. Að auki notum við annað hvort kókosolíu eða kakósmjör, eftir því hvaða áferðareiginleikum við erum að sækjast eftir. Ef ætlunin er að bera súkkulaðið á borð fyrir gesti er snjallt að nota kakósmjör því það er stífara við stofuhita og heldur sér betur. En þegar við erum að laga súkkulaði til að eiga í frystinum (hugsað til að laumast sjálfar í einn og einn mola) þá gefur kókosolían betri áferð. Hún er á mörkum þess að vera fljótandi við stofuhita (allavega ef stofan er hlý) og því bráðnar súkkulaðið ef það stendur lengi á borðinu. En molarnir eru passlega mjúkir nýkomnir úr frystinum. 

Súkkulaðið er annaðhvort hægt að setja í lítil konfekt mót eða eitt stórt form og skera svo í passlega bita seinna.
Þetta er svona grunnuppskrift, tilvalið er að bæta mórberjum, söxuðum hnetum, eða öðru góðgæti út í. 

Uppskriftin

2 msk möndlusmjör
2 msk tahini
1/2 dl kókosolía eða kakósmjör
3 msk hlynsíróp
1 dl kakóduft
1 tsk vanilluduft, lífrænt
1/4 tsk sjávarsalt
1 dl mórber eða saxaðar hnetur, ef vill

Aðferð

  1. Setjið möndlusmjör, tahini, kókosolíu/kakósmjör og hlynsíróp í pott og hrærið saman þar til kekklaust. Passið að hafa mjög vægan hita. (Má líka setja í matvinnsluvél og mauka).
  2. Setjið kakóið og kryddið út í og hrærið saman.
  3. Endið á að setja heil mórber eða saxaðar hnetur út í, ef þið viljið.
  4. Takið af hellunni og setjið í lítil konfektform eða í eitt stórt form.
  5. Setjið inn í frysti og látið stífna. 
  6. Skerið í minni bita og njótið!

 

Af vef maedgurnar.is