Fara í efni

Dagur líffæragjafa er í dag

Aðstandendur Skarphéðins Andra Kristjánssonar, sem lést í janúar í fyrra, hafa ákveðið að tileinka 29. janúar líffæragjöfum.
Skarphéðinn Andri
Skarphéðinn Andri

Aðstandendur Skarphéðins Andra Kristjánssonar, sem lést í janúar í fyrra, hafa ákveðið að tileinka 29. janúar líffæragjöfum. Hann lést 28. janúar í fyrra og varð líffæragjafi daginn eftir. „Þann 29. janúar 2014 fór af stað umræða í þjóðfélaginu um líffæragjöf. Umræðan varð bæði mun meiri en við, aðstandendur Skarphéðins Andra sem varð líffæragjafi þennan dag, gátum gert okkur í hugarlund sem og þarfari en við áttum von á,“ sagði Steinunn Rósa Einarsdóttir móðir Skarphéðins í samtali við Stöð 2.

Steinunn segir að á þessu eina ári hafi orðið veruleg breyting á viðhorfi til líffæragjafar og að umræðan hafi orðið mun opnari. Einnig hafi aðstandendur líffæragjafa fundið fyrir létti með hve opin umræðan væri orðin.

„Við höfum fengið bréf frá aðstandendum líffæragjafa, líffæraþegum sem bæði eru á biðlista og hafa fengið líffæri og einnig frá þeim sem misst hafa ættingja á biðlista. Við höfum líka hitt fólk í þessum hópum sem hafa þakkað og hvatt okkur áfram.“

Ákveðið hefur verið að minna á líffæragjöf þann 29. janúar 2015. Tilgangur dagsins er að fjölga þeim sem taka afstöðu og að minnast allra líffæragjafa sem gefið hafa mörgum líf og aukin lífsgæði. Hægt er að taka afstöðu til líffæragjafar á vef Landlæknis.

„Hvetjum við fólk til að fara inn á síðu Landlæknis og skrá afstöðu sína hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð. Litur dagsins er appelsínugulur og ætla margir að taka þátt í því að minna á líffæragjöf með því að skarta þeim lit þann 29. janúar,“ segir Steinunni loks í samtali við Stöð 2.

Heimild: feykir.is