Fara í efni

Ef kremin virkuðu væri enginn hrukkóttur

Það eiga allar konur að nota eitthvað til að mýkja húðina“ segir Ragna Fossberg förðunarmeistari hjá RÚV.
Já ef þau virkuðu eins og auglýsingar vilja meina
Já ef þau virkuðu eins og auglýsingar vilja meina

„Það eiga allar konur að nota eitthvað til að mýkja húðina“ segir Ragna Fossberg förðunarmeistari hjá RÚV, en hún er meðal þeirra fremstu í landinu í sínu fagi.

Hún hefur starfað í Sjónvarpinu í rúm 40 ár, auk þess að vinna við fjölda kvikmynda. Það er því mikill fengur að ráðum frá henni, en hún hefur fallist á gefa lesendum síðunnar nokkur einföld ráð um snyrtingu sem munu birtast á síðunni á næstunni. Hér er fjallað um húðina í andlitinu.

Förum reglulega með bílinn í smurningu

Ragna segir að húðin þurfi raka og konur eigi að nota það sem þeim hentar best, krem eða olíur.„Ég set aldrei neitt framan í mig“ er setning sem hún segist heyra stundum. En það sé misskilningur, því húðin þurfi raka og best sé að byrja að hugsa um það áður en skaðinn er skeður og húðin orðin alltof þurr. „Við förum reglulega með bílinn í smurningu“, segir Ragna, „og sama gildir um líkamann, hann þarf meðhöndlun svo hann stirðni ekki. Hún segir að hollt líferni og mataræði hjálpi, en það eitt og sér dugi ekki til.

Allir fá hrukkur

Dýrustu kremin eru ekki alltaf best segir Ragna. Það sé verið að selja alls kyns hrukkukrem. „Ef kremin kæmu í veg fyrir að við yrðum hrukkótt, væri enginn hrukkóttur“, segir hún. Hún segir jafnframt að það sé hægt að milda hrukkur með því að hugsa vel um húðina og bera á hana raka. En allir verði hrukkóttir. Eitt segist Ragna dásama, en það sé íslenska framleiðslan Penzim, sem sé unnin úr íslenskum fiski og gefi andlitinu raka og mýkt. „Það er ódýrt, íslenskt og virkar“ segir hún.

Heimild: lifdununa.is