Fara í efni

Gjörðirnar tala - heimurinn hlustar, hugleiðing frá Guðna

Guðni með hugleiðingu á laugardegi.
Gjörðirnar tala - heimurinn hlustar, hugleiðing frá Guðna

Gjörðirnar tala – heimurinn hlustar 

Í framgöngunni birtum við okkur – og þar með þá heimild sem við höfum skammtað okkur eða sannarlega öðlast. Heimildin opinberast í gjörðum okkar og heimurinn hlustar og gerir allt til að styðja beiðni okkar og yfirlýsingar, hvort sem við biðjum um velsæld eða vansæld. 

Það er alveg ljóst að við erum ekki hugsanir okkar, skoðanir eða viðhorf. En það sem úr þér verður byggist á því sem þú trúir – því sem þú biður heiminn um í staðhæfingum, gjörðum og athygli, viljandi eða ó-viljandi. 

Sýndu mér vini þína og ég skal segja þér vit þitt. Sýndu mér líka hvernig þú lifir, hvernig þú nærir þig, hvernig þú klæðir þig – því við vörpum skilaboðum okkar út til heimsins á hverju einasta andartaki. Og þessi skilaboð um væntingar markast af því hversufrjáls söngur hjartans er. 

Mikilvægasta spurningin sem manneskja getur spurt sig er þessi: „Er heimurinn vingjarnlegur eða fjandsamlegur?“ 
Ofangreind speki er eignuð Albert Einstein í ýmsum útgáfum á fjölmörgum heimasíðum, en við nánari athugun virðist það ekki alveg rétt.

En í okkar samhengi skiptir heldur engu máli hvort þessi mikilvægu orð komu frá Einstein eða ekki. Spekin hefur jafn mikið gildi – spurningin er jafn knýjandi: 
„Lítur þú á heiminn sem vingjarnlegan eða fjandsamlegan?“ 

Hverju trúir þú um heiminn? Er hann fjandsamlegur eða vingjarnlegur? Sérðu glas sem er hálffullt eða glas sem er hálftómt? Eða sérðu og skilur að glasið er alltaf yfirfullt?