Fara í efni

Nægur svefn er mikilvægur

Það er öllum nauðsynlegt að ná góðum nætursvefni til að gefa líkamanum tækifæri til að nærast og ná djúpri endurnýjun sem er ein aðal undirstaðan fyrir andlega og líkamlega vellíðan.
Nægur svefn
Nægur svefn

Það er öllum nauðsynlegt að ná góðum nætursvefni til að gefa líkamanum tækifæri til að nærast og ná djúpri endurnýjun sem er ein aðal undirstaðan fyrir andlega og líkamlega vellíðan. Rannsóknir sýna að ólíkt hugmyndum almennings virðist aðaltilgangur svefns ekki endilega vera að hvíla líkamann því hann hvílist með því að slaka á, eða leggjast upp í sófa án þess að sofna. Heldur hallast vísindin fremur að því að tilgangurinn sé aðallega þörf til að endurnæra huga og heila og styrkja ónæmis- og taugakerfið. Jafnframt fær heilinn bæði hvíld og tækifæri til að vinna úr tilfinningum og hugsunum.

Það er margt sem hefur áhrif á svefn og svefnvenjur, en fæstir eru að taka eftir því hvað truflar svefn þeirra. Svefnleysi gerir fólk ruglað, sljótt og einbeitingarlítið og viðbragðsflýtir minnkar til muna. Lítill svefn í margar nætur getur haft í för með sér skynbrenglun, jafnvel ofskynjanir. Einnig geta komið fram breytingar á persónuleika, svo sem að fólk verði óvenju uppstökkt og ört. Alvarleg og þrálát svefnröskun eykur líkur á heilsukvillum, s.s. þunglyndi, sýkingum, of háum blóðþrýstingi, streitu, offitu svo nokkuð sé nefnt.

Hvað er svefn? Svefn er eðlilegt stig meðvitundarleysis, þegar rafmagnsboð heilans eru taktfastari en á vökustigi og bregðast síður við utanaðkomandi áreiti. Það eru tvö grunnstig svefns, þ.e. djúpsvefn (non-REM) þegar endurnýjun á sér stað, en það stig er truflað af tímabilum svefns með hröðum augnhreyfingum (Rapid Eye Movement- REM) þegar flestir draumar eiga sér stað. Það svefnstig sem talið er sérstaklega mikilvægt fyrir breytingar á taugakerfinu, svo sem við myndun nýrra minninga, kallast REM-svefn (e. REM sleep, einnig kallaður bliksvefn eða draumsvefn). Dýr sem sífellt eru vakin af REM-svefni, en fá að öðru leyti að sofa óáreitt, eiga erfiðara með að læra nýja hluti. REM-svefn virðist einnig skipta máli fyrir minni og nám hjá mönnum. Til að mynda eyða námsmenn í prófum meiri tíma í REM-svefn en á öðrum tímum árs. Sömuleiðis fer hátt hlutfall svefns bráðgera barna í REM-svefn en lágt hlutfall svefns þroskaheftra barna. Margir halda því fram að þetta sé vegna þess að í REM-svefni styrkjast nýjar minningar og tengjast við eldri. Þess vegna skýrist algengi drauma á þessu svefnstigi ef til vill af því að verið er að „taka til“ í heilanum.

Hvað þarf mikinn svefn? Það er einstaklingsbundið hve mikinn svefn manneskja þarf. Mælt er með að flestir fullorðnir fá a.m.k. 7-8 tíma svefn til að ná fullri endurnýjun og hvíld, en tíminn minnkar eftir því sem fólk eldist (flestir aldaraðir þurfa um 6-7 tíma). Sumir sérfræðingar segja að við þurfum meira en aðrir segja að við komumst vel af með minna, það er enn verið að rannsaka þetta. Þú getur prufað hvað hentar þér með að athuga hvernig þér líður og gengur við dagleg störf eftir mismunandi langan svefn.

Unglingar eru í örum vexti og þurfa a.m.k. 9 tíma svefn og það á sömuleiðis við um 9-12 ára börn, 6 - 9 ára þurfa um 10 klukkutíma og 3-6 ára ættu að sofa frá 10-12 tímum á nóttu. Smábörn á aldrinum 1-3 ára þurfa um 10-14 tíma svefn og börn sem eru yngri en eins árs þurfa jafnframt einhvern svefn að degi til.

Heimild: heil.is