Fara í efni

Viðar Bragi Þorsteinsson keppti í Ironman, hann gaf sér tíma í smá viðtal

„Ég er 40 ára, giftur til 20 ára með 3 börn tvær dætur 20 ára, 15 ára og son 4 ára. Menntaður rafiðnfræðingur, starfa hjá Íslenskri erfðagreiningu við viðhald, uppsetningar og forritun á þjörkum og öðrum rannsóknartækjum. þá sé ég um þríþrautarþjálfun hjá Þríkó og hef verið að hjálpa ansi mörgum að undanförnu að þjálfa sig fyrir Ironman.“
Viðar Bragi
Viðar Bragi

„Ég er 40 ára, giftur til 20 ára með 3 börn tvær dætur 20 ára, 15 ára og son 4 ára. Menntaður rafiðnfræðingur, starfa hjá Íslenskri erfðagreiningu við viðhald, uppsetningar og forritun á þjörkum og öðrum rannsóknartækjum. þá sé ég um þríþrautarþjálfun hjá Þríkó og hef verið að hjálpa ansi mörgum að undanförnu að þjálfa sig fyrir Ironman.“ 

Hvað varð til þess að þú tókst þátt í þessari keppni upphaflega ?

Það er löng saga, en í stuttu máli þá sá ég auglýsingu í blaði haustið 2007 á vegum Astra Zeneca þar sem auglýst var eftir fólki með Astma til að taka þátt í verkefni sem miðaði að því að fólk sem notaði lyfin sín rétt gæti stundað reglulega hreyfingu. Verkefnið endaði með þátttöku í Reykjavíkurmaraþoni. Ég skráði mig og byrjaði að hlaupa. Kláraði maraþonið og hélt áfram að æfa hlaup. Eftir Stokkhólmsmaraþon 2009 var ég slæmur í hásinum svo ég byrjaði að synda því ég hafði lesið að það hjálpaði. Komst ekki yfir laugina en fór einu sinni í viku og synti u.þ.b 500m. Þá um haustið skráði ég mig í garpasund hjá Breiðablik og byrjaði að æfa sund þrisvar í viku. Það gekk sæmilega og ég skráði mig í Kópavogsþríþrautina 2010. Mér fannst þetta svo gaman að ég byrjaði að mæta á hjólaæfingar hjá Hjólamönnum þá um haustið. Árið 2011 kviknaði sú hugmynd að fara í Ironman svo ég skráði mig Ironman Regensburg 2012.

Er þetta svona gaman að þú ferð ár eftir ár ?

Það er einhvern vegin ansi ávanabindandi að taka þátt í þessum löngu þríþrautum. Þegar maður er að keppa og er að erfiða sem mest þá ákveður maður að gera þetta ekki aftur, þetta sé of erfitt en um leið og keppnin er búin þá fer maður að hugsa um næstu keppni. Af því að þetta er svo langt og svo margt sem getur ýmist gengið upp eða farið úrskeiðis  og manni finnst alltaf að maður hefði getað gert eitthvað betur eða öðru vísi.

En þetta er fyrst og fremst alveg hrikalega gaman og sérstaklega í svona frábærum hópi einsog ég var með í Svíþjóð. 

aa

Hvernig er undirbúningurinn fyrir keppnina, hvað gerir þú til að koma þér í sem best form?

Fyrir þessa keppni er ég að æfa  á bilinu 10-26 klukkustundir á viku. Þ.e.a.s. hvíldarvikurnar sem eru fjórða hver vika eru 10 tímar en síðan er þetta breytilegt 12-26 með mismunandi áherslum. Það sem skiptir einna mestu máli er að æfa stöðugt en ekki með látum í nokkrar vikur og síðan ekkert í nokkrar vikur. Því er mjög mikilvægt að halda sér heilum bæði að meiðast ekki eða veikjast. Það þarf svo auðvitað að huga að öllum þáttum, hreyfingu, hvíld, mataræði og síðast en ekki síst andlega þættinum. Æfingar hjá mér skiptast nokkurn veginn í hjól 50%, hlaup 30% og sund 20%. Er hins vegar orðinn áberandi slakastur í hlaupunum af þessum greinum svo mig langar að auka aðeins áhersluna á þau.

Hvernig er mataræðið fyrir keppni og eftir keppni?

Vikuna fyrir keppni borða ég vel og sérstaklega mikið af kolvetnum. Borða reyndar aldrei mikið kjöt en ég hætti alveg í kjöti 2-3 dögum fyrir og sem minnst af trefjum almennt. Þannig að þetta er mikið af pasta og hrísgrjónum ásamt ávöxtum, grænmeti og hnetum. Morgunmaturinn er hafragrautur með hnetum, berjum, rjóma og dökku súkkulaði. Eftir keppni borðar maður allt sem kjafti kemur. Það er mismunandi eftir einstaklingum hvernig matarlistin er en ég er a.m.k. alltaf mjög svangur enda búinn að brenna 10.000 kcal.

a

Ertu lengi að jafna þig eftir svona stranga keppni?

Í raun er maður ótrúlega ferskur eftir svona keppni á yfirborðinu, maður getur fagnað strax á eftir og farið út að borða og notið kvöldsins með vinum og fjölskyldu. Ég fór t.d. ekki að sofa fyrr en rúmlega 4 nóttina eftir keppni og var því vakandi í 24 tíma. Næstu 2-3 daga er ég með harðsperrur og síðan finnst mér ég góður. Hins vegar er það fengin reynsla að það tekur 1-2 mánuði að jafna sig almennilega þannig að maður sé tilbúinn að gera eitthvað af viti í keppnum eða æfingum.

Nú er það Hawaii í október, ætlarðu að gera einhverjar breytingar á undirbúningi og mataræði fyrir þá keppni?

Það eru bara 8 vikur frá Ironman Kalmar að heimsmeistaramótinu svo þetta er auðvitað ansi snúið. Þarf að hvíla í tvær vikur, næ svo einni „æfingablokk“ það eru stífar æfingar í 3-4 vikur og svo aftur að trappa sig niður í 2. Mataræðið í sjálfri keppninni er alltaf stór spurning og í sífelldri endurskoðun, þessi þáttur gekk ekki nógu vel hjá mér núna í Kalmar og var ég með í magaverk seinni 90 km á hjólinu og gat lítið innbyrt á þessu tímabili sem skilaði minni orku í hlaupinu.

Hvað eru margir keppendur í Ironman á Hawaii ? 

Það eru 1800 keppendur og talað um að 50 - 75 þúsund reyni að ná lágmarki, margir eru með þetta alveg á heilanum. Hef ekki verið að hugsa um þetta fyrr en nú í vor og aðalmarkmið mitt fyrir þessa keppni var að ná lágmarki, það var aldrei inni í myndinni að komast á pall og hvað þá leiða keppnina (fyrir utan atvinnumenn) eftir sund og hjól.

d

Ef einhvern þarna úti hefur áhuga á að taka þátt í svona keppni, hvaða ráð myndiru gefa viðkomandi?

Best er að skrá sig til æfinga í eitt af þríþrautarfélögunum. Við val á félagi er gott að taka tillit til fjarlægðar frá heimili til að eyða ekki óþarfa tíma í ferðalög, þá þurfa æfingaplön félagsins að passa miðað við vinnutíma og fjölskyldutíma einstaklings svo gott er að hafa nokkurt val um æfingatíma. Þá er mismunandi hvað félögin leggja áherslu á. Í mínu félagi Þríkó höfum við lagt mesta áherslu á heilan járnmann þó að fólk sé að þjálfa fyrir allar veglengdir. Hin félögin hafa einbeitt sér meira að styttri vegalengdum. Félögin hafa verið með kynningarfundi um mánaðarmótin ágúst - september svo það er um að gera að kíkja á þá og sjá hvað er í boði. Við verðum með kynningarfund fimmtudaginn 11. september. Stærstu félögin á höfuðborgarsvæðinu eru Þríkó í Kópavogi, Ægir þríþraut í Reykjavík og 3SH í Hafnarfirði. Hvað æfingarnar sjálfar varðar þá er þolinmæði mjög mikilvæg til að ná árangri. Góðir hlutir gerast hægt.