Fara í efni

Geðheilsan verður til í æsku

Geðheilsan.
Geðheilsan verður til í æsku

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þann 7. apríl er stofndagur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Stofnunin nýtir þennan dag ár hvert til að vekja athygli á mikilvægum heilbrigðismálum í alþjóðlegu samhengi en í ár er Alþjóðaheilbrigðisdagurinn (World Health Day) tileinkaður þunglyndi.

Ástæðan er sú að þunglyndi er að verða eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamálið á heimsvísu en gert er ráð fyrir að árið 2020 verði þunglyndi næststærsta orsök örorku í heiminum öllum.

Hér á Íslandi eru geðraskanir þegar orðnar algengasta orsök örorku. Sú staðreynd er sérstaklega alvarleg í ljósi þess að geðraskanir, ólíkt öðrum langvinnum sjúkdómum, koma yfirleitt fram snemma á ævinni. Helmingur geðraskana hefur þegar komið fram við 15 ára aldur og í 75% tilfella fyrir 25 ára aldur. Skaðinn sem geðraskanir geta valdið á lífi og virkni einstaklingsins á sér því stað við upphaf ævinnar, þegar verið er að stunda nám, hefja starfsferil og eignast fjölskyldu, frekar en á seinni árum.

Áhersla á geðrækt og forvarnir

Mikilvægt er að auka aðgengi að gagnreyndum meðferðarúrræðum vegna andlegra kvilla og vanlíðanar en ekki er síður mikilvægt að efla geðrækt og forvarnir á samfélagslegum grundvelli. Geðheilsa verður ekki til á heilbrigðisstofnunum heldur þar sem fólk lifir sínu daglega lífi. Það sem meira er, geðheilsan verður til í æsku. Geðrækt og forvarnir þurfa því einna helst að beinast að því umhverfi þar sem börn verja æsku sinni, sem eru heimilin og skólarnir fyrst og fremst, en einnig íþrótta- og æskulýðsstarf, listsköpun og aðrar tómstundir barna og unglinga.

Mikilvægasta samfélagslega aðgerðin til að efla geðheilsu og vellíðan til lengri tíma er að hlúa að barnafjölskyldum, efla foreldra í uppeldishlutverki sínu og skapa fjölskylduvænar aðstæður í samfélaginu sem ýta undir jákvæð tengsl milli foreldra og barna. Að sama skapi er brýnt að styðja með öflugum hætti við fjölskyldur sem búa við erfiðar félags- og efnahagslegar aðstæður, veikindi eða aðrar takmarkanir til að tryggja öllum börnum öruggar og nærandi uppeldisaðstæður.

Í geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaráætlun stjórnvalda til árins 2020 er lögð áhersla á þessi atriði og fyrsta aðgerðin sem nefnd er undir kafla um geðrækt og forvarnir er að sett verði á fót þverfagleg teymi í nærumhverfi sem sinna fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og stuðningi við foreldra og fjölskyldur. Hugmyndin er að slík þjónusta verði samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga og veitt í náinni samvinnu heilsugæslu, félagsþjónustu og sérfræðiþjónustu skóla með það að markmiði að styðja við jákvæða uppeldishætti, góð samskipti innan fjölskyldu og aðra mikilvæga þætti er lúta að heilbrigðu fjölskyldulífi.

Skólar gegna mikilvægu hlutverki

Skólar gegna einnig grundvallarhlutverki við eflingu geðheilbrigðis og vellíðanar í æsku. Í skólum má ná til nær allra barna og ungmenna í samfélaginu og eru þeir því einstakur vettvangur til að vinna að jákvæðum félagstengslum og efla einstaklingsbundna færni sem eykur líkur á góðri geðheilsu. Þetta eru atriði eins og færni í samskiptum, sjálfstjórn, trú á eigin getu, færni í að leysa vandamál og ágreining, færni í að takast á við tilfinningar og vanlíðan, sjálfstæði og heilbrigt sjálfsmat. Markviss kennsla og þjálfun á þessu sviði með gagnreyndum aðferðum er mikilvægur liður í geðræktarstarfi skóla og gegnir mikilvægu hlutverki fyrir eflingu geðheilbrigðis í samfélaginu.

Sömuleiðis er mikilvægt að heildarstefna og umgjörð skólastarfsins styðji við vellíðan og geðheilsu nemenda. Skóli án aðgreiningar er í eðli sínu til þess fallinn að þjóna þessu hlutverki í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á jöfnuð, mannréttindi, fjölbreytileika, einstaklingsbundna styrkleika og aðlögun umhverfis að þörfum nemenda frekar en öfugt. Ennfremur er skilgreining heilsu og velferðar sem einnar af grunnstoðum menntunar í aðalnámsskrá mikilvægur áfangi sem stuðlar að því að vellíðan og alhliða heilbrigði nemenda sé haft að leiðarljósi í öllu skólastarfi hér á landi. Þá koma einnig mikilvægar aðgerðir til að efla geðrækt í skólastarfi fram í geðheilbrigðisstefnu stjórnvalda og lýðheilsustefnu ásamt aðgerðaáætlun þar sem sérstök áhersla er lögð á börn og ungmenni.

Heilsueflandi skólar – geðræktandi skólar

Embætti landlæknis heldur utan um heildarskólanálgun sem veitir leik-, grunn- og framhaldsskólum markvissan stuðning, ráðgjöf og leiðsögn í því að innleiða þennan grunnþátt menntunar. Heilsueflandi skólar er líkan sem á rætur að rekja til Alþjóðaheilbrigðismálastofunarinnar og miðar að því að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag.

Skólar koma sér upp heildrænni og vel skipulagðri heilsustefnu þar sem horft er á allt skólasamfélagið í heild og teknir fyrir áhersluþættir á borð við næringu, hreyfingu, tannvernd, öryggi, geðrækt og tóbaks-, áfengis- og vímuvarnir. Slík nálgun er ekki aðeins ákjósanleg í ljósi þess að hún nær til alls skólasamfélagsins í heild, nemenda, foreldra, kennara, starfsfólks og stjórnenda, heldur einnig að því leyti að unnið er á heildrænan hátt með helstu áhrifaþætti heilsu og hamingju ungmenna.

Heilbrigði er í eðli sínu heildrænt og nær jafnt til félagslegra, líkamlegra og andlegra þátta í lífi einstaklingsins. Allir þessir þættir hafa áhrif hver á annan og því þarf heilsuefling að fara fram á þeim forsendum. Hreyfing og næring hafa jákvæð áhrif á líðan, góð geðheilsa verndar gagnvart áfengis- og vímuefnaneyslu og svona mætti áfram telja.

Íslenskir leik-, grunn- og framhaldsskólar sem kjósa að starfa í anda heilsueflandi skóla fá aðgang að gátlistum Embættis landlæknis sem eru leiðbeinandi í starfi skólans hvað varðar ofantalda málaflokka. Þar á meðal er gátlisti um geðrækt sem tekur til allra þátta skólastarfsins, frá stefnumótun og skólaumhverfi til geðræktarkennslu og vellíðanar starfsfólks.

Þar er að finna fjölþættar aðgerðir sem byggja á bestu þekkingu og stuðla að bættri geðheilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks. Þessar aðgerðir eru ekki háðar sérstakri stefnu í skólastarfi heldur er þeim ætlað að skapa umgjörð og aðstæður sem stuðla að því að geðræktarstarf í skólanum verði markvisst, sjálfbært og árangursríkt óháð þeim kennsluaðferðum og nálgun sem skólinn notast við.

Besta land í heimi til að vera barn

Í ljósi smæðar þjóðarinnar, náinna tengsla íbúanna, góðrar efnahagsstöðu og sterkra samfélagslegra innviða ríkja hér eflaust betri skilyrði en víðast hvar annarsstaðar til að tryggja börnum góða æsku. Við höfum þegar vakið heimsathygli fyrir sigra í jafnréttis- og heilbrigðismálum, s.s. lægstu tíðni barnadauða og mesta jafnrétti kynjanna. Þetta hefur þó ekki alltaf verið svona heldur er þetta árangur sem hefur náðst með markvissum aðgerðum á fjölmörgum sviðum samfélagsins.

Það sama mun gilda um forvarnir og eflingu geðheilbrigðis meðal þjóðarinnar til lengri tíma. Slíkar aðgerðir þurfa að vera þvert á ráðuneyti og ná til sem flestra sviða samfélagsins. Það er ekki óraunhæft markmið að Ísland verði besta land í heimi til að vera barn. Vilji og samstillt átak þar sem geðheilsa og vellíðan barna er höfð í fyrirrúmi í öllum mikilvægum ákvörðunum er allt sem þarf.

Tökum höndum saman og byggjum börnum góða æsku til að vernda heilsu þeirra og lífsgæði til framtíðar. Við getum það!

Sigrún Daníelsdóttir
verkefnisstjóri geðræktar

Af vef landlaeknir.is