Fara í efni

HEILBRIGÐ SJÁLFSMYND

Heilbrigð sjálfsmynd byggist á því að þekkja sjálfa(n) sig og meta sig á raunsæjan og eðlilegan hátt. Að geta verið sátt(ur) við sjálfa(n) sig og finnast maður mikils virði, skilyrðislaust. Það þýðir að við þurfum að þekkja styrkleika okkar og veikleika en á sama tíma vera sátt við okkur sjálf, óháð kostum og göllum.
HEILBRIGÐ SJÁLFSMYND

Heilbrigð sjálfsmynd byggist á því að þekkja sjálfa(n) sig og meta sig á raunsæjan og eðlilegan hátt.

Að geta verið sátt(ur) við sjálfa(n) sig og finnast maður mikils virði, skilyrðislaust.

Það þýðir að við þurfum að þekkja styrkleika okkar og veikleika en á sama tíma vera sátt við okkur sjálf, óháð kostum og göllum.

Sjálfsálit er heildarálit okkar á okkur sjálfum, það hvað okkur finnst um hæfni okkar og getu en einnig takmarkanir. Sú eða sá sem er með gott sjálfsálit hefur almennt jákvætt viðhorf til sjálfrar eða sjálfs sín og finnst hún eða hann eiga rétt á virðingu frá öðrum. Fólk með slæmt sjálfsálit er gjarnt á að veita eigin skoðunum og hugmyndum lítið vægi og hafa áhyggjur yfir því að vera ekki nógu gott. Segja má að sjálfsálit sé einn hluti sjálfsmyndarinnar, sem er fastmótaðri og nær yfir fleiri þætti en eingöngu álit okkar á sjálfum okkur. Sjálfsmyndin er fastmótaðri en sjálfsálit og erfiðara er að breyta henni

Umræður um heilbrigða sjálfsmynd snúa oftar en ekki að börnum og unglingum en mikilvægt er fyrir fólk á öllum aldri að vera meðvitað um mikilvægi heilbrigðar sjálfsmyndar. Margir fullorðnir hefðu gott af því að efla sjálfsálit sitt og rifja upp hvað þeim þykir mikilvægt varðandi heilbrigða sjálfsmynd og hvernig þeir geta unnið að henni.

Til þess að efla sjálfsálit er mikilvægt að hrekja burtu innri gagnrýnisröddina (þá óraunsæju og leiðinlegu), hlúa að sjálfum sér og fá hjálp frá öðrum.

Þættir í bernsku sem stuðla að heilbrigðri sjálfsmynd eru t.d:

  • Færni og þjálfun
  • Hrós
  • Að vera vel tekið af öðrum
  • Umhyggja
  • Skýr rammi og mörk
  • Að upplifa það að hlustað sé á mann
  • Fá athygli og faðmlög
  • Að upplifa velgengni í íþróttum eða skóla
  • Að eiga trausta vini

Þættir í bernsku sem geta stuðlað að óheilbrigðri sjálfsmynd og lágu sjálfsmati geta hins vegar verið:

  • Óréttmæt eða hörð gagnrýni
  • Ítrekuð neikvæð viðbrögð frá öðrum
  • Skortur á umhyggju og jákvæðum aga
  • Að það sé öskrað á mann eða maður sé beittur ofbeldi
  • Að vera hunsaður, niðurlægður eða strítt
  • Krafa um að vera alltaf „fullkominn“
  • Að misheppnast eða falla í íþróttum og skóla og þá sérstaklega ef börn fá þau skilaboð að mistökin megi yfirfæra á þau sjálf.

Af vef landlæknis.